Bifreiðaumferð um hringveginn jókst um 4,6% á síðasta ári miðað við árið á undan en fara þarf aftur til ársins 2013 til þess að finna minni aukningu á milli ára samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Aukningin var 3,4% í desember miðað við sama tíma í fyrra.
Mest jókst umferðin um Suðurland á milli áranna 2017 og 2018, eða um 7,4%, en minnst um Norðurland, eða um 2,5%. Miðað við desember 2017 og á síðasta ári jókst umferðin mest um Vesturland, eða um 6,4%, en minnst um Norðurland, eða um 1,3%.
„Mögulega hefur niðurfelling gjaldskyldu í Hvalfjarðargöngum orðið til þess að umferðin hafi aukist þetta mikið á Vesturlandi umfram aðra landshluta en næst mest jókst umferðin um Suðurland eða um 5,1 %,“ segir í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni.