Hátt í tuttugu fundir eru á dagskrá í vikunni í kjaraviðræðum. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins binda vonir við að línur taki að skýrast í vikunni. Meðal annars verður fundað í deilu VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara á miðvikudag.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segja SA þurfa að svara því á fundinum hvort samningarnir gildi frá áramótum.
„Ef þeir hafna kröfunni um að samningar gildi frá 1. janúar eða segja að ekkert sé til skiptanna eins og hefur komið fram í máli Samtaka atvinnulífsins og tengdra aðila, s.s. Viðskiptaráðs, þá segir það sig sjálft að deilan endar í dómi félagsmanna,“ segir Ragnar Þór.
„Það er félagsmanna að ákveða á endanum hvort við förum í hart eða ekki,“ segir Ragnar en hann kveðst þó bjartsýnn á að lending náist í kjaraviðræðum. „Við finnum að okkar baklandi er misboðið vegna verðtryggingar, vaxtamála, húsnæðismála og hvernig efsta lagið hefur skammtað sér laun,“ segir Ragnar og bætir við að SA hafi ekki gefið verkalýðshreyfingunni svör um hversu mikið sé til skiptanna við gerð nýrra kjarasamninga.
Ef viðræður sigla á endastöð þrátt fyrir sáttamiðlun ríkissáttasemjara getur atburðarásin orðið hröð og aðdragandi að átökum stuttur. Stéttarfélögin hafa þó ekki frítt spil heldur verða að uppfylla fjölmörg skilyrði vinnulöggjafarinnar ef boða á til vinnustöðvunar og það verður ekki gert nema hún hafi verið samþykkt í leynilegri atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna.
Auk fundarins hjá ríkissáttasemjara á miðvikudag eru á dagskrá fyrri hluta vikunnar fundir Samtaka atvinnulífsins með samninganefnd iðnaðarmanna og seinni hluta vikunnar fundir samninganefndar Starfsgreinasambandsins með SA. Þá eru fundir vinnuhópa iðnaðarmanna, SGS og Landssambands verslunarmanna dreifðir yfir vikuna.
„Ég bind vonir við að línur skýrist fyrir vikulok og næsta vika geti farið í úrvinnslu,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í umfjöllun um samningamálin í Morgunblaðinu í dag.
Vilhjálmur Birgisson segir erfiðan kjaravetur í vændum sé svigrúm til kjarahækkana ekki meira en 1,9%.