„Þetta er orðin hjákátleg staða að borgarstjóri og formaður borgarráðs ætli að fara að hittast á einhverjum fundum og kaffispjalli og fara yfir þessa skýrslu. Þetta er náttúrulega bara orðið vandræðalegt,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá því í gær að hann ætli ekki að verða við kröfu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að víkja úr þriggja manna hópi sem á að rýna í niðurstöður innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið svonefnda. Fyrir vikið mun Hildur segja sig úr hópnum, eins og hún hefur sjálf lýst yfir.
Vigdís segist ekki vilja tjá sig um framtíð hópsins þar sem hún hafi ekki komið að skipan hans. „Það var aldrei borið undir mig eða nokkurn annan í Miðflokknum að koma að þessum hópi þannig ég get ekki talað um að þetta sé minnihluti og meirihluti sem þessi hópur var stofnaður utan um.“
Hún segir það hins vegar ljóst að borgarstjóri eigi ekki að sitja í hópnum. „Dagur getur ekki tekið að sér það verk að fara allt í einu að skoða skýrsluna núna og skoða sín eigin verk og sín eigin lögbrot.“
Vigdís hefur ásamt Kolbrúnu Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, óskað eftir því að innri endurskoðandi komi fyrir borgarráð á fimmtudag og svari spurningum borgarfulltrúa sem vöknuðu við lestur skýrslunnar. „Það eru svo alvarlegar ábendingar í þessari skýrslu sem þarf að skoða betur og fá frekari svör við. Braggamálið er rétt að byrja og því er hvergi nærri lokið. Það eru það miklir áfellisdómar og lögbrot sem er verið að benda á í skýrslunni að það er greinilegt að þetta er rétt að byrja.“
Dagskrá fundar borgarráðs verður ákveðin í dag á undirbúningsfundi meirihlutans. „Innri endurskoðanda er skylt að mæta ef kjörnir fulltrúar fara fram á það. Hitt er svo spurningin hvort meirihlutinn reyni að hindra það að það mál komist á dagskrá. Ég trúi því nú ekki að meirihlutinn ætli að fara að taka þann slag að hafna okkur um að taka þennan dagskrárlið á dagskrá,“ segir Vigdís.
Dagur sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að braggamálinu væri lokið. Vigdís er á öðru máli og segist hún sannfærð um að braggamálið verði áfram á dagskrá borgarstjórnar. Fyrsti fundur borgarstjórnar á þessu ári verður eftir viku, þriðjudaginn 15. janúar. „Við í minnihlutanum förum fram á að óska eftir umræðu um skýrsluna, það er alveg klárt mál,“ segir hún.