Bráðamóttöku Landspítalans tekst vel að sinna bráðahlutverki sínu. Ekki er töf á því að þeir sem veikastir eru fái þjónustu og meðaldvalartími þeirra sem útskrifast heim hefur ekki lengst.
Vandinn liggur í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn en meðaldvalartími sjúklinga sem bíða innlagnar á deildir spítalans hefur lengst og er nú 23,3 klst., samanborið við um 16,6 klst. á sama tíma í fyrra, en æskilegt viðmið er 6 klst.
Þetta kemur fram í hlutaúttekt vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans, sem birt er á vef embættis landlæknis.
Þar segir enn fremur, að þegar úttektin var gerð hafi lengsta bið eftir innlögn verið 66 klst. en dæmi eru um að sjúklingar hafi beðið lengur en 100 klst. á deildinni eftir innlögn. Þeir sem bíða hvað lengst eftir innlögn eru aldraðir einstaklingar, sjúklingar með flókin margþátta vandamál og sjúklingar í einangrun.
Fram kemur að 6. desember hafi embættinu borist ábending um alvarlega stöðu sem skapast hafði á bráðamóttöku Landspítalans. Embættið brást við með því að hefja samdægurs hlutaúttekt á stöðu mála, með heimsóknum, rýni á gögnum og viðtölum við starfsfólk og stjórnendur. Til að fá fyllri mynd af stöðunni á spítalanum voru einnig heimsóttar tvær legudeildir, A-6 og 12-E, að því er segir á vef landlæknis.
Fram kemur, að helstu niðurstöður hlutaúttektar séu þær að bráðamóttöku Landspítalans takist vel að sinna bráðahlutverki sínu. Ekki sé töf á því að þeir sem veikastir eru fái þjónustu og meðaldvalartími þeirra sem útskrifast heim hefur ekki lengst, er 4-5 klst. sem sé innan viðmiða.
„Vandinn liggur í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn en meðaldvalartími sjúklinga sem bíða innlagnar á deildir spítalans hefur lengst og er nú 23,3 klst. en æskilegt viðmið er 6 klst. Ástæður þessa eru einkum tvær og endurspeglast í skorti á virkum legurýmum; annars vegar sú að einstaklingar sem lokið hafa meðferð á spítalanum geta ekki útskrifast þar sem úrræði skortir utan hans og er þar einkum um að ræða hjúkrunarrými fyrir aldraða. Þannig bíða nú 53 einstaklingar á bráðadeildum og endurhæfingu. Hins vegar hefur þurft að loka legurýmum á bráðalegudeildum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og eru nú 35 rúm lokuð vegna þess,“ segir á vef landlæknis.
Í skýrslunni segir, að ljóst megi vera að kröfur um húsnæði og aðstöðu séu aðrar á göngudeild en á legudeild. Erlend viðmið geri ráð fyrir að sjúklingar dvelji ekki meira en 6 klst. á bráðamóttöku og sé meðaldvalartími þeirra sem útskrifist heim af bráðamóttökunni innan þeirra marka en meðaldvalartími þeirra sem leggjast inn á LSH sé langt út fyrir þau mörk. Til undantekninga ætti að heyra að sjúklingar séu skoðaðir á gangi en ekki á stofu. Óásættanlegt sé að sjúklingar dvelji í gluggalausu rými lengur en í nokkrar klukkustundir.
Þá sé óviðunandi að sjúklingar með sjúkdóma, sem þarfnast einangrunar, geti ekki verið í einangrun vegna aðstöðuleysis.
Skráðum atvikum tengdum umhverfi og aðstæðum á bráðamóttöku hefur fjölgað og brýnt að bregðast við því.
Fram kemur, að í skýrslunni séu lagðar fram ábendingar til Landspítala sem einkum fjalli um starfsumhverfi og mönnun, slípun innri ferla, eflingu dag- og göngudeilda og endurmat á því hvort rétt hafi verið að loka Hjartagátt.
Í ábendingum til heilbrigðisráðuneytis er bent á að opna þurfi, án tafar, fleiri hjúkrunarrými, að efla þurfi heimahjúkrun, heimaþjónustu og dagdvalarrými og að efla þurfi mönnun sérstaklega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða með öllum tiltækum ráðum. Embætti landlæknis er kunnugt um að heilbrigðisráðuneytið vinnur þegar að þessum málum.