Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er að finna á veggspjöldum sem að undanförnu hafa verið send í alla skóla og menntastofnanir landsins. Útgáfa spjaldanna er sameiginlegt verkefni Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og verkefnastjórnar stjórnvalda um heimsmarkmiðin sem vilja að nemendur og starfslið skóla kynnist betur mikilvægum skilaboðum sem kallast geta leiðarstef fyrir lífið í veröldinni.
„Svo heimsmarkmiðin, sem eru háleit, nái fram að ganga verða allir að leggjast á eitt,“ segir Harpa Júlíusdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
„Sérhver áfangi sem næst er sigur. Þar er skemmst að minnast þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem giltu 2000-2015. Með þeim náðist að fækka þeim jarðarbúum sem lifa við sára fátækt um helming, verulega dró úr ungbarnadauða og miklir sigrar unnust í baráttu við hungur og sjúkdóma á borð við malaríu og berkla. Í þessu tilliti getum við verið bjartsýn um árangur. Að skapa veröld fyrir alla þar sem friður, mannréttindi og sjálfbærni eru leiðarljós er verkefni sem við eigum öll að geta tekið þátt í af heilum hug þó að við náum ekki að skapa hinn fullkomna heim.“
Sjá samtal við Hörpu Júlíusdóttur í heild í Morgunblaðinu í dag.