„Það er augljóst að skilyrðin fyrir skyndifriðuninni eru ekki fyrir hendi,“ segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, um skyndifriðun Minjastofnunar vegna hótelbyggingar við Víkurgarð.
Skyndifriðunin snýst um hvar á að ganga inn á hótelið.
Jóhannes segir ákvörðun Minjastofnunar vera ólögmæta ef í ljós kemur að ekki sé um misskilning eða mistök að ræða en Lindarvatn stendur að hótelbyggingunni.
Jóhannes bendir á 20. grein minjalaga þar sem kemur fram að heimilt sé að beita skyndifriðun í undantekningartilfellum ef það er fyrirséð að hætta sé á að minjar glatist. „Á því svæði sem skyndifriðlýsingin tekur til eru engar minjar og einungis um að ræða hefðbundinn jarðveg og möl,“ segir hann og bætir við að fornleifafræðingur hafi rannsakað svæðið undir eftirliti Minjastofnunar. „Við vitum fyrir víst að þarna er engar minjar að finna. Þetta er allt mjög undarlegt að okkar mati.“
Einnig nefnir hann að ekki hafi verið bent á um hvaða minjar er að ræða. Lindarvatn mótmælti ákvörðun stofnunarinnar í gær og bíður nú viðbragða. Býst Jóhannes við því að ákvörðunin verði dregin til baka.