„Númer eitt, tvö og þrjú í umferðaröryggismálum er að lækka hraðann,“ segir Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar. Rauðljósaakstur og ofsahraði eru vandamálið á Hringbraut, að hans mati.
Slys varð í morgun á gangbraut þeirri sem liggur yfir Hringbraut við gatnamót hennar og Meistaravalla, er bíl var ekið á 13 ára barn er átti leið yfir götuna. Ekki er þó fullyrt að aksturslag ökumanns hafi verið þar orsök.
Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að á hans bæ hafi menn lengi haft áhyggjur af stöðunni á Hringbraut. Reykjavíkurborg hefur gert tillögur að því hvernig má bæta úr löku umferðaröryggi á Hringbraut og sent þær Vegagerðinni. „Það hefur tekið lengri tíma en við hefðum viljað, að vinna úr þeim tillögum,“ segir Þorsteinn.
Það er sum sé viss seinagangur hjá Vegagerðinni við að ráðast í umbætur á Hringbrautinni. Þorsteinn segir að nauðsynlegt sé þar annars vegar að lækka hámarkshraða og hins vegar að gera öruggari gönguleiðir. Þá þarf að breyta umferðarljósastillingum. Þetta eru aðgerðir sem borgin hefur þegar lagt til að verði ráðist í, t.d. við Hofsvallagötu.
„Við höfum lengi viljað bæta úr þessu á þessu svæði þarna,“ segir Þorsteinn. Þarna séu börn í skóla o.s.frv.
Við umrædda gangbraut þarf að ýta á takka svo komi grænt ljós en ökumenn virðast hneigðari til rauðljósaaksturs við þær aðstæður. Rauðljósaakstur er að verða sífellt algengari hjá Reykvíkingum, sýna nýjar rannsóknir, að sögn Þorsteins.