„Algjört eitur í fráveitukerfinu“

Blautþurrkur eru sívaxandi vandamál í fráveitukerfinu. Svona leit sía í …
Blautþurrkur eru sívaxandi vandamál í fráveitukerfinu. Svona leit sía í fráveitukerfinu út um daginn. Facebook/Veitur

Blautþurrkur, tannþráður, eyrnapinnar og aðrir óæskilegir aðskotahlutir eru sívaxandi vandamál í íslensku fráveitukerfi. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, segir þessa hluti vera „algjört eitur í fráveitukerfinu“. Hætta er á að „fituklumpar“ myndist sem geta stíflað kerfið eins og dæmi eru um í Bretlandi.

Veitur bentu á það í færslu á Facebook-síðu sinni hversu gríðarlegt vandamál blautklútar væru í fráveitukerfinu. Í færslunni er mynd sem sýnir hvernig ein sía í hreinsistöð fráveitu leit út um daginn en hún var stútfull af blautþurrkum.

Ólöf segir að blautþurrkurnar séu margar hverjar það sterkar að þær stífli og skemmi dælurnar og kostnaðurinn vegna þess sé gífurlegur. Oft þurfi að gera við dælurnar sem er kostnaðarsamt og í einhverjum tilvikum kaupa nýjar öflugri dælur. Þá er kostnaðarsamt að urða úrganginn sem síaður er úr kerfinu.

Breskur „fituhlunkur“ stíflaði holræsi

Fréttastofa BBC og fleiri fjölmiðlar greindu í vikunni frá risastórum „fituklumpi“ eða „fituhlunki“ (e. fatberg) sem fannst nýverið í holræsi sjávarbæjarins Sidmouth í Devon-sýslu í Englandi. Hlunkurinn eða „skrímslið“ eins og fyrirbærið hefur verið kallað er um 64 metrar á lengd og inniheldur aðallega fitu, blautþurrkur og olíu sem sturtað hefur verið niður í klósett eða hellt ofan í niðurföll vaska.

Slíkir klumpar myndast þegar blautþurrkur, smokkar, eyrnapinnar og fleiri aðskotahlutir blandast saman við olíu og feiti sem storknar síðan.

Fituklumpurinn í allri sinni dýrð.
Fituklumpurinn í allri sinni dýrð. Twitter/South West Water

Getur gerst hér á landi

Ólöf segir að svona klumpar geti vel myndast hér á landi þó að stærðin verði líklega ekki eins og í Bretlandi.

„Já það er alveg hætta. Við erum kannski ekki að sjá þetta í þessum stærðum en þar sem til dæmis rusl eins og blautklútar fara í klósett og þar sem fólk er að setja líka kannski fitu og annað slíkt niður í vaska þá er mikil hætta á að þetta verði til,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is og bætir við:

Fitan er sérstaklega slæm

„Þetta er algjört eitur í fráveitukerfinu. Til dæmis fita, mjög margir skola fitunni niður í vaskinn og halda að það sé í lagi ef þeir láta heitt vatn renna eftir á þannig að hún komist út fyrir þeirra lagnir og út í götu. En þar storknar hún oft og svo magnast vandamálið þegar hún hittir fyrir rusl sem oft er sett í klósett eins og tannþráð, eyrnapinna og blautþurrkurnar sem eru að verða sífellt stærra vandamál. Við erum að verða fyrir tugmilljóna króna kostnaði vegna rusls í fráveitunni.“

En hvað má þá fara ofan í klósettið?

„Allt sem við höfum borðað og klósettpappír. Við höfum stundum sagt kúkur, piss og klósettpappír. En þá spyr fólk „Hvað ef maður þarf að gubba?“ segir Ólöf hlæjandi og bætir við: „Líkamlegur úrgangur og klósettpappír. Allt annað í ruslið.“

Lengri en Boeing-flugvél

Ljóst er að íbúar Sidmouth hafa ekki farið eftir þessum einföldu reglum því annars hefði ekki myndast risavaxinn „fituhlunkur“ í holræsi þeirra. Starfsmenn South West Water, sem er veitufyrirtæki á Suðvestur-Englandi, segja að klumpurinn í Sidmouth sé sá stærsti sem þeir hafa séð og það muni taka allt að átta vikur að fjarlægja flikkið.

Ekki er enn hægt að segja til um nákvæma stærð eða þyngd fyrr en búið er að fjarlægja klumpinn úr holræsinu en fyrstu mælingar benda til þess að hann sé um 64 metrar á lengd (210 fet).

Til að setja það í samhengi er Skakki turninn í Písa 57 metrar á hæð og Boeing 747SP-flugvél mælist tæplega 57 metrar á lengd. Hallgrímskirkja er ekki nema 10 metrum lengri en fituklumpurinn í Sidmouth. Vinna við að fjarlægja klumpinn á að hefjast 4. febrúar.

Klumpurinn í Sidmouth er þó langt frá því að vera sá stærsti sem fundist hefur í Englandi því árið 2017 fannst 250 metra langur og 130 tonna þungur klumpur í holræsi frá 19. öld. Hluti af honum endaði á safni í London og mátti rekja aukna ásókn gesta í safnið beint til hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert