„Þetta er bara tímabundin lausn og þarf að taka fyrir alla götuna því það eru margar gönguleiðir yfir Hringbraut,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, um gangbrautarvörslu við gangbraut sem liggur yfir Hringbraut við gatnamótin við Meistaravelli.
Ekið var á barn á gatnamótunum á níunda tímanum í gærmorgun en íbúar Vesturbæjar hafa gagnrýnt aðgerðarleysi yfirvalda í Facebook-hópi. Fjöldi barna og ungmenna fer daglega yfir Hringbraut á leið í skóla, frístundir eða á íþróttaæfingar. Íbúar hafa meðal annars bent á að hraðakstur sé allt of tíður á Hringbraut og að ökumenn fari oft yfir á rauðu ljósi.
„Það gerist of oft og tölurnar sýna okkur að þetta er að aukast á Íslandi sem er óheillavænleg þróun,“ segir Sigurborg. Auk gönguljósanna við Meistaravelli er hægt að komast yfir Hringbraut við gatnamót við Framnesveg, Bræðraborgarstíg og Hofsvallagötu. Gönguljós eru til móts við hjúkrunarheimilið Grund og Birkimel. Þá eru ótaldar leiðir við hringtorg við JL-húsið og hringtorg við Þjóðminjasafnið.
Eins og áður hefur komið fram á Vegagerðin veginn og Reykjavíkurborg getur ekki gert neinar breytingar nema með hennar samþykki. „Við getum ekki lækkað hámarkshraðann, við getum ekki endurhannað gatnamót. Við höfum hins vegar komið með tillögur í gegnum tíðina,“ segir Sigurborg.
Hún bendir á að borgin hafi komið með tillögu um endurhönnun gatnamótanna við Hofsvallagötu þegar keyrt var á barn sem var að hjóla yfir Hringbraut. „Þá komum við með tillögu að endurhönnun gatnamótanna, þar sem þau yrðu hækkuð upp, merkt betur, endurhönnun á ljósastýringum og fleira,“ segir Sigurborg en þær tillögur voru ekki samþykktar.
„Við tók margra mánaða ferli til að reyna að ná lendingu sem Vegagerðin er sátt við. Það virðist vera komin lending í það mál og mögulega sjáum við framkvæmdir á þessu ári.“
Sigurborg ítrekar að það þurfi að taka Hringbraut, frá hringtorginu við þjóðminjasafn að hringtorginu við JL-hús, í heild sinni. „Við þurfum að lækka hraðann á götunni. Við viljum gera allt sem við getum til að minnka hraðann og auka öryggi gangandi vegfarenda. 2017 skilaði borgin skýrslu þar sem segir að það verði að lækka umferðarhraða til að auka öryggi gangandi og breyta hönnun borgarinnar til að hún virki fyrir gangandi og á forsendum íbúanna sem þarna búa. Þetta hefur legið fyrir síðan þá en ekkert hefur verið gert.“
Gangbrautarvarslan á gatnamótum Hringbrautar og Meistaravalla í morgun gekk vel, samkvæmt frétt Vísis. Þar segir að um 40 börn hefðu farið yfir gatnamótin á þeim hálftíma sem stuðningsfulltrúi sinnti gangbrautarvörslu.
Hins vegar ók ökumaður jeppa yfir á rauðu ljósi um leið og gangbrautarvörðurinn yfirgaf svæðið.