WOW air flutti á síðasta ári 3,5 milljónir farþega, sem er mesti farþegafjöldi í sögu félagsins. Farþegum fjölgaði um 24% frá árinu áður.
Sætanýting WOW air árið 2018 var 90% en var 88% árið 2017, að því er segir í tilkynningu. Þá fjölgaði framboðnum sætiskílómetrum um 25% á milli ára. Í júlí og ágúst ferðuðust hátt í 900 þúsund gestir með WOW air sem eru fleiri farþegar en allt árið 2015. Á tímabilinu maí til september flugu fleiri með WOW air en allt árið 2016.
WOW air flutti 180 þúsund farþega til og frá landinu í desember eða um 16% færri farþega en í desember árið 2017. Sætanýting WOW air í desember var 81% en sætanýting í fyrra á sama tímabili var 88%. Framboðnum sætiskílómetrum fækkaði um 7% í desember frá því á sama tíma í fyrra.
Stutt er síðan Icelandair tilkynnti að flugfélagið hefði aldrei flutt fleiri farþega en á síðasta ári, eða 4,1 milljón.