Halldór Xinyu Zhang hefur verið iðinn við að þýða íslenskar bókmenntir á kínversku. Fyrsta þýðing hans kom út í Kína 2017, fyrir skömmu bættust tvær bækur í safnið, fjórar eru væntanlegar síðar á þessu ári og fleiri eru í farvatninu.
Meðan nóttin líður eftir Fríðu Sigurðardóttur og smásagnasafn með sögum eftir Svövu Jakobsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur, Braga Ólafsson, Gyrði Elíasson, Jón Kalman Stefánsson og Kristínu Eiríksdóttur komu út í þýðingu Halldórs í Kína í desember.
Smásagnasafnið birtist í virtu kínversku bókmenntatímariti, Heimsbókmenntum, og var gefið út í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins. Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson var fyrsta bókin sem kom út í þýðingu Halldórs. „Ég þýddi hana vegna þess að hún var tilnefnd til kínversku bókmenntaverðlaunanna sem besta erlenda skáldsaga 21. aldar og var síðan útnefnd til verðlaunanna 2016,“ segir hann. Riddarar hringstigans eftir sama höfund, Ástin fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur, Stormfuglar eftir Einar Kárason og Undantekningin eftir Auði Övu Ólafsdóttur eru væntanlegar á kínversku í haust. „Ég er búinn að þýða Riddara hringstigans og Stormfugla svo ég á bara tvær bækur eftir í ár,“ segir hann léttur á brún.
Sjá viðtal við Halldór Xinyu Zhang í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.