Ógn við velferð nemenda

Yfir 13% nemenda sem tóku þátt í rannsókn á einelti í grunnskólum á Íslandi höfðu orðið fyrir einelti á undanförnum mánuðum og 6,3% nemenda höfðu orðið fyrir einelti tvisvar eða þrisvar í mánuði. Þrátt fyrir eineltisáætlanir hefur einelti aukist og einelti í grunnskólum er ógn við velferð nemenda, segja höfundar rannsóknar á einelti í grunnskólum, Vanda Sigurgeirsdóttir og Ársæll Már Arnarsson. 

Nýlega var birt grein eftir þau í Netlu, vefriti um uppeldi og menntun.  Vanda hefur um árabil rannsakað einelti á Íslandi, ásamt því að vinna mikið á vettvangi, með kennurum og öðru fagfólki sem vinnur með börnum.

Ársæll Már Arnarsson er prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk BA-prófi í sálfræði 1993, MS-gráðu í heilbrigðisvísindum 1997 og PhD-gráðu í líf- og læknavísindum frá H.Í. árið 2009. Síðastliðinn áratug hafa rannsóknir hans aðallega beinst að heilsufari og líðan unglinga.

Brot á mannréttindasáttmálanum

Í greininni segja þau að einelti sé ekki bara ógn við velferð nemenda  heldur einnig brot á mannréttindasáttmálum og andstætt gildum skóla og siðareglum fagfólks.

„Hins vegar er einelti bæði flókið og erfitt viðureignar, sérstaklega ef það er langt gengið. Því eru forvarnir og fræðsla mikilvæg til að breyta viðhorfum eins og ýmsum þeim sem fram koma í niðurstöðum þessarar rannsóknar. Þær gefa góðar vísbendingar um þætti sem vinna þarf með og er óskandi að skólasamfélagið geri það, til heilla fyrir öll börn,“ segir í lokaorðum greinarinnar.

Vanda Sigurgeirsdóttir er lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið …
Vanda Sigurgeirsdóttir er lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Alls tók 10.651 nemandi í 6., 8. og 10. bekk á Íslandi veturinn 2013–14 eða 84% af heildarfjölda nemenda í þessum árgöngum þátt í rannsókninni. Niðurstöður sýna að hægt er að skipta þátttakendum í fjóra hópa eftir tengslum þeirra við einelti. Hóparnir eru þolendur, gerendur, hvort tveggja þolendur og gerendur og svo þau börn sem ekki tengjast einelti með beinum hætti.

Aðeins helmingur þekkti eineltisáætlun skólans

Í rannsókninni voru svör þátttakenda við níu spurningum um einelti skoðuð út frá þessum fjórum hópum. Í ljós kom að viðhorf nemendanna lituðust af reynslu þeirra af einelti. Gerendur og þolendur/gerendur höfðu til að mynda neikvæðari viðhorf til ýmissa þátta. Einnig kom í ljós að aðeins um helmingur þátttakenda taldi sig þekkja eineltisáætlun skóla síns. Þá vakti athygli að um tíu prósent nemenda töldu að einelti væri þolendum að kenna. Auk þess óttaðist nokkur hluti nemenda að mæta í skólann vegna eineltis. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vinna þurfi með viðhorf nemenda og auka umræðu og fræðslu um eineltisáætlanir og inngrip í eineltismál.

Líkt og bent er á í grein þeirra Ársæls og Vöndu hafa rannsóknir sýnt fram á víðtækar, neikvæðar og langvarandi afleiðingar eineltis fyrir þá sem fyrir því verða. Þar á meðal á andlega og líkamlega heilsu, svo sem með auknu þunglyndi, kvíða og depurð. Þá getur það haft neikvæð áhrif á sjálfmynd, sjálfsmat og sjálfstraust, ásamt því að hafa neikvæð áhrif á lífsgleði og vellíðan almennt.

Gerendur eru fjölbreyttur hópur

Þau segja gerendur þá sem meiða og særa önnur börn endurtekið, oft viljandi og með það að markmiði að bæta eigin stöðu. Greina megi ýmis persónueinkenni og hegðunarmynstur sem margir gerendur eiga sameiginleg en eigi að síður er mikilvægt að benda á að þetta er fjölbreyttur hópur.

Samkvæmt rannsóknum eru gerendur oft árásarhneigðari en önnur börn, eru með jákvæð viðhorf til ofbeldis, sýna frekar mótþróa og þeim gengur verr í námi. Þá glíma þeir oft við öfund og ótta við að missa völd og stöðu. Einnig eru sumir gerendur í vandræðum með félagsfærni og sjálfsstjórn, glíma við þunglyndi, eru óöruggir og eiga í erfiðleikum með að eignast vini. Ekki glíma þó allir gerendur við þessi vandamál, heldur eru með góða félagsfærni, eiga auðvelt með að stjórna og stýra öðrum, eru félagslega sterkir, í góðum vinasamböndum og jafnvel leiðtogar í hópnum.

Ársæll Már Arnarsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Ársæll Már Arnarsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkt og ítrekað hefur komið fram eru eineltisáætlanir í gildi í flestum, ef ekki öllum grunnskólum á landinu. Í greininni kemur fram að aðgerðaáætlanir séu mikilvægar og hér á landi hefur verið unnið eftir þeim síðan árið 2002.

„Hins vegar má spyrja sig hvers vegna meiri árangur hafi ekki náðst. Er þetta mikilvæg spurning sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir, því einelti tengist vellíðan, velferð og heilsu nemenda með afgerandi hætti,“ segir í grein Vöndu og Ársæls.

Af 10.566 nemendum sem svöruðu spurningum um einelti sögðust 13,2% (1.391) einhvern tíma hafa verið lögð í einelti á undanförnum mánuðum, 5,4% (569) höfðu lagt aðra í einelti og 4,4% (466) höfðu reynslu af hvoru tveggja.

Mikill meirihluti hefur enga reynslu af einelti

Mikill meirihluti nemenda, eða 77% (8.140), kvaðst enga reynslu hafa haft af slíku á því tímabili sem um var spurt. Í öllum fjórum hópunum voru flestir mjög eða frekar sammála því að kennarinn myndi bregðast við en engu að síður er ljóst að þeir tveir hópar sem ekki höfðu orðið fyrir einelti voru mun líklegri til að vera jákvæðir en hinir. Þeir nemendur sem höfðu annaðhvort eingöngu verið lagðir í einelti eða lögðu einnig aðra í einelti voru á hinn bóginn líklegri til að vera frekar eða mjög ósammála – 16% í fyrrnefnda hópnum og 20% í þeim síðarnefnda.

Ársæll og Vanda segja rannsóknina sýna með beinum hætti að vinna þarf með viðhorf nemenda, þá sérstaklega gerenda og þolenda/gerenda, til eineltis og inngripa í eineltismál. Þá þarf að fara í vandlega skoðun á því hvernig fræðsla um einelti og eineltisáætlanir fer fram í grunnskólum. Auk þess þarf að taka á ótta barna við að fara í skólann.

Niðurstöðurnar benda einnig í átt að nokkrum úrlausnaratriðum sem minnkað gætu einelti í íslenskum grunnskólum. Þjálfun og fræðsla í kennaranámi er eitt þeirra atriða sem þarf að skoða. Þá er mikilvægt að líta á einelti sem félagslegt vandamál alls hópsins og því þarf að vinna með menningu, viðhorf og hegðunarreglur barnahópsins, segja þau í greininni.

„Einnig þarf að ná betur til foreldra alls barnahópsins. Loks er mikilvægt að hafa börnin sjálf með í ráðum þegar kemur að vinnu gegn einelti. Börn verða vitni að eineltisatvikum sem fullorðnir sjá ekki [...], þau þekkja menninguna og hegðunarreglur og átta sig á þeim félagslega veruleika sem þau lifa og hrærast í. Því eru þau í góðri aðstöðu til að koma með gagnlegar tillögur um hvernig bæta megi inngrip í eineltismál,“ segir í greininni sem nefnist Viðhorf íslenskra grunnskólanema til eineltis og inngripa í eineltismál út frá reynslu þeirra af einelti.

Greinin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert