Vigdísarholt ehf., einkahlutafélag í eigu ríkisins, mun annast rekstur nýja hjúkrunarheimilisins á Seltjarnarnesi, samkvæmt viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra og Vigdísarholts ehf. sem undirrituð var í dag.
Þá mun félagið einnig taka að sér rekstur dagdvalarrýma í bæjarfélaginu, en stefnt er að því að fjölga þeim töluvert.
Haft er eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í frétt á vef Stjórnarráðsins að það sé fagnaðarefni að með þessu hafi verið eytt þeirri óvissu um rekstur heimilisins sem skapaðist er ljóst varð „að Seltjarnarnesbær myndi ekki axla samningsbundna ábyrgð sína á rekstri þess“.
„Ég hef lagt alla áherslu á að tryggja opnun heimilisins um leið og það er tilbúið til reksturs, því hver dagur er dýrmætur í þessum efnum. Tafarlaus opnun þessa hjúkrunarheimilis er eitt af því sem sérstaklega er nefnt í hlutaúttekt embættis landlæknis til að bregðast við alvarlegri stöðu á bráðamóttöku Landspítalans,“ sagði ráðherra.
Fyrir liggur að Seltjarnarnesbær mun afhenda hjúkrunarheimilið fullfrágengið fyrir næstu mánaðamót.
Samkvæmt viljayfirlýsingunni tryggir heilbrigðisráðuneytið greiðslur fyrir rekstri 40 hjúkrunarrýma af hálfu Sjúkratrygginga Íslands frá 1. febrúar nk., en gert er ráð fyrir að það geti tekið allt að þrjá mánuði að koma heimilinu í fullan rekstur.
„Við munum leggja allt kapp á að taka heimilið í notkun eins fljótt og kostur er, manna stöður og ljúka öðrum undirbúningi“ er haft eftir Steingrími Ara Arasyni, formanni stjórnar Vigdísarholts. Gerir hann ráð fyrir að hægt verði að taka við fyrstu heimilismönnunum í byrjun apríl.
Þá mun Vigdísarholt einnig taka að sér rekstur níu dagdvalarrýma sem Seltjarnarnesbær hefur rekið við Skólabraut og gert er ráð fyrir að sú þjónusta verði færð inn í nýja húsnæði hjúkrunarheimilisins í byrjun júlí og er í kjölfarið stefnt á að fjölga dagdvalarrýmum upp í 25.