Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að stórkostlegt starf sé unnið á Landspítalanum og að það hafi veitt henni nýja sýn að kynnast starfsemi spítalans með eigin augum í heimsókn sinni þangað í morgun.
„Það er allt annað að heimsækja Landspítalann sem sjúklingur eða aðstandandi sem ég hef auðvitað gert eins og flestir, eða að koma og fá að sjá á bak við tjöldin. Mér fannst það í sjálfu sér alveg stórmerkilegt að sjá hvað er gott starf unnið hér, ekki að ég hafi ekki vitað það, en það er öðruvísi að sjá það með eigin augum,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is að lokinni heimsókninni.
Hún benti á að 5.900 starfsmenn vinni á Landspítalanum og um 1.800 nemar starfi þar á ársgrundvelli. Stofnunin sé mjög stór og því hafi verið merkilegt að kynnast utanumhaldinu um starfið þannig að allt gangi mestmegnis eins og smurð vél. „Það er eiginlega alveg stórkostlegt.“
Heimsóknin var óvenjuleg fyrir þær sakir að þetta var í fyrsta sinn á þessari öld sem forsætisráðherra Íslands heimsækir Landspítalann. Aðspurð sagðist Katrín hafa það á sinni dagskrá að heimsækja mikilvægir stofnanir á landinu. Hún hafi heimsótt Háskóla Íslands í vor og Landspítalinn hafi verið næstur á dagskrá. „Mér finnst það mikilvægt að fá að kynnast þessu innan frá sem forsætisráðherra og þetta var alveg gríðarlega góð og vel skipulögð heimsókn.“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var einnig með í för og nutu þær leiðsagnar Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. Fyrst heimsóttu þær bráðamóttökuna í Fossvogi og fóru eftir það yfir á Landspítalann við Hringbraut. Auk þess að fræðast um starfsemina kynntu þær sér framkvæmdirnar sem standa þar yfir.
„Þetta er líka mikilvægt fyrir okkur og fyrir mig sérstaklega því ég er ekki inni í þessum málum dags daglega að sjá hvað er verið að gera vel, sem er gríðarlega margt, og líka hvaða áskoranir það eru sem spítalinn stendur frammi fyrir,“ sagði Katrín og fannst afar merkilegt að sjá fjarskiptamiðstöðina á bráðamóttökunni og neyðarmóttökuna fyrir þolendur kynferðisbrota. „Það er búið að vinna alvega gríðarlega gott starf á þessum tveimur stöðum og við stöndum á alþjóðavísu afar framarlega í því hvernig við erum að bregðast við. Eins fannst mér mjög merkilegt að sjá hjartadeildina, en ég er svo heppin að hafa ekki þurft að leita til hennar sjálf. En þetta er alveg virkilega gott og mikilvægt starf sem þarna er unnið.“
Ráðherrarnir fengu einnig að sitja „eins og fluga á vegg“ stöðufund þar sem farið var yfir verkefni dagsins og sagði Katrín þær hafa fengið mikla innsýn í starfsemina. Áskoranirnar séu miklar, ekki síst þegar kemur að mönnun og fráflæði, þ.e. útskrift sjúklinga af Landspítalanum.
Embætti landlæknis barst í byrjun desember ábending um alvarlega stöðu sem hafði skapast á bráðamóttöku Landspítalans og brást embættið við með því að hefja samdægurs hlutaúttekt á stöðunni með heimsóknum, rýni á gögnum og viðtölum við starfsfólk og stjórnendur.
Niðurstaða úttektarinnar var að bráðamóttöku spítalans takist vel að sinna bráðahlutverki sínu. Vandinn liggi í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn og er meðaldvalartími þeirra sem bíða innlagningar á deildir spítalans 23,3 klukkustundir, samanborið við 16,6 klukkustundir í fyrra. Æskilegt viðmið er sex klukkustundir.
Spurð út í næstu skref stjórnvalda vegna vandans sem steðjar að Landspítalanum sagði hún ljóst af skýrslunni að „það er mikill fjöldi rúma þar sem eru einstaklingar sem ættu kannski með réttu að vera á hjúkrunarheimili. Þetta er gömul saga og ný. Það er hluti af ástæðu þess að við settum átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila sem eitt af okkar lykilmálum hjá stjórnvöldum. Við erum að fara að sjá töluverðar framkvæmdir þar á næstunni, þó að það sé auðvitað mikið verkefni,“ sagði Katrín og bætti við að vandinn snúist einnig um mönnunina.
„Þar er heilbrigðisráðherra að vinna að áætlun um hvernig við getum gert betur í mönnun hjúkrunarfræðinga. Þetta er ekki séríslenskt mál. Þetta hef ég til dæmis rætt við mína kollega á Norðurlöndum þar sem þetta er vandi alls staðar,“ sagði hún.