16 milljónir farþega árið 2025

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Isavia hefur lagt fram tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar Keflavíkurflugvallar. Þar gerir Isavia grein fyrir áformuðum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, sem varða meðal annars breytingar á flugbrautakerfi, stækkun flugstöðvar og fjölgun bílastæða.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Markmið Isavia með framkvæmdunum er að hámarka afkastagetu núverandi flugbrauta í samræmi við framtíðarsýn Isavia um að Ísland verði miðstöð flugs á Norður-Atlantshafi. Forsendur framkvæmdanna eru spár flugfélaga um þróun farþegafjölda og að árið 2025 verði heildarfjöldi farþega um flugvöllinn orðinn um 14-16 milljónir, en hann var um 10 milljónir árið 2018.

Gert er að ráð fyrir að störfum í tengslum við flugvöllinn fjölgi um rúmlega 4.400 til ársins 2025, en árið 2016 voru bein störf á flugvellinum um 5.600.

Í tillögunni gerir Isavia grein fyrir hvernig fyrirtækið hyggst leggja mat á umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda við stækkun Keflavíkurflugvallar. Í því felst mat á áhrifum á umhverfi og samfélag, bæði staðbundið á Suðurnesjum en einnig á umhverfi og innviði samfélagsins annarsstaðar á landinu, að því er segir í tilkynningunni. 

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 25. janúar 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert