Aðstoði flóttafólk við að komast í vinnu

Ólafur Ísleifsson þingmaður vildi vita hvernig aðlögun flóttafólks að íslensku …
Ólafur Ísleifsson þingmaður vildi vita hvernig aðlögun flóttafólks að íslensku samfélagi væri háttað. mbl.is/​Hari

Vinnumálastofnun hefur frá því í byrjun árs 2016 boðið upp á markvissa þjónustu og ráðgjöf við flóttafólk í atvinnuleit. Markmið stofnunarinnar er að aðstoða flóttafólk við að komast sem fyrst í starf, en einnig að geta veitt stuðning í einhvern tíma eftir að starf er fengið til að aðlögun megi takast sem best. Þetta kemur fram í svörum Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra við fyrirspurn frá þingmanninum Ólafi Ísleifssyni um markmið um aðlögun að íslensku samfélagi.

Spurði Ólafur hvaða markmið hefðu verið sett um aðlögun þeirra sem fái alþjóðlega vernd hér á landi, m.a. varðandi þátttöku á vinnumarkaði, færni til að sjá sér farborða, tækifæri til að afla sér menntunar og kunnáttu í íslenskri tungu.

Í svörum ráðherra segir að viðmiðunarreglur flóttamannanefndar frá 2013 séu í gildi hér vegna þeirra sem koma hingað fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og svo séu í gildi leiðbeinandi reglur frá 2014 fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks fyrir það flóttafólk sem kemur á eigin vegum. 
Markmiðið sé í báðum tilfellum að tryggja árangursríka aðlögun flóttafólks að íslenskum aðstæðum.

Segir í svörum ráðherra að flóttafólki standi til boða ýmis atvinnutengd úrræði, m.a. íslenskunámskeið, starfsþjálfun og vinnustaðanám. Velferðarráðuneytið hafi þá gert samning við Vinnumálastofnun vegna arabískumælandi ráðgjafa sem ætlað sé að þróa fræðsluefni fyrir flóttafólk, veita ráðgjöf og vinna að stuðningsúrræðum fyrir flóttafólk og veita sveitarfélögum sem taka á móti arabískumælandi flóttafólki ráðgjöf. 

„Í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar er lagt upp með að flóttafólk skuli eiga kost á ókeypis kennslu í íslensku og samfélagsfræðslu á fyrsta ári og er miðað við 720 kennslustundir. Flóttafólki sem kemur á eigin vegum stendur til boða styrkur vegna íslenskunáms að fjárhæð 150.000 kr. frá sveitarfélaginu en jafnframt býður Vinnumálastofnun atvinnuleitendum af erlendum uppruna íslenskunám,“ segir í svörum ráðherra. Þá hafi sú breyting verið gerð á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna að þeir sem hafi fengið alþjóðlega vernd hér á landi eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum geti einnig fengið námslán. 

Skoðanakönnun sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti árið 2016 hafi gefið mikilvægar vísbendingar um þjónustu, líðan, heilsu, menntun, mat á menntun, atvinnuþátttöku, íslenskukunnáttu og upplifun á fordómum og mismunun, þó að svarhlutfall hafi verið lélegt.

Meðal þess sem þar hafi komið fram var að aðstoð við húsnæði nýttist flóttafólkinu best, en þar á eftir kom fjárhagsaðstoð og íslenskukennsla. Þá kom fram að 78% flóttafólks voru í leiguhúsnæði og um helmingur þess tók þátt í einhvers konar félagsstarfi. Almennt voru foreldrar virkir að koma í foreldraviðtöl í skólum. Af svarendum voru 18% í námi, 42% í launuðu starfi, 13% atvinnuleitendur, 3% í fæðingarorlofi, 21% öryrkjar og 3% atvinnuleitendur. 

Þegar spurt var um hæsta stig menntunar sem einstaklingarnir höfðu lokið kom fram að 43% höfðu lokið háskólaprófi en 19% höfðu lokið grunnskólanámi eða minna. Þá höfðu 30% lokið bóklegu námi á framhaldsskólastigi og 5% lokið iðnnámi. Alls töldu 75% svarenda nám þeirra ekki nýtast í starfi á Íslandi. 

Ólafur spurði einnig hvort ráðherra teldi gildandi markmið og árangur til þessa vera fullnægjandi og svaraði Ásmundur Einar því til að þau markmið sem sett hafi verið í leiðbeinandi reglum og viðmiðunarreglum eigi enn vel við, en þörf sé á að koma á samræmdri móttöku fyrir flóttafólk óháð því hvernig það kemur til landsins. Sérstaklega sé mikilvægt að tryggja að flóttafólk sem komi á eigin vegum fái viðunandi þjónustu og sé upplýst um réttindi sín og skyldur. 

Nefnd sem hafði það hlutverk að kortleggja núverandi þjónustu og gera tillögur um samræmt móttökukerfi fyrir flóttafólk hafi skilað tillögum til ráðherra í september á síðasta ári og nú sé unnið að því að kostnaðarmeta tillögurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert