Ætlað að jafna sveiflur á markaði

Samkvæmt samkomulaginu verður meðal annars heimilt að gera aðlögunarsamninga við …
Samkvæmt samkomulaginu verður meðal annars heimilt að gera aðlögunarsamninga við framleiðendur sem tilbúnir eru að hætta eða draga úr sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í nýrri starfsemi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar. Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að auknu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, auka frelsi sauðfjárbænda og að auðveldara verði að takast á við sveiflur í ytra og innra umhverfi greinarinnar, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Bændasamtökunum.

Samkvæmt samkomulaginu, sem nálgast má hér, verður meðal annars heimilt að gera aðlögunarsamninga við framleiðendur sem tilbúnir eru að hætta eða draga úr sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í nýrri starfsemi. Framleiðendur geta óskað eftir því að gera slíka samninga til ársins 2022. Þá verður stofnsettur markaður fyrir greiðslumark, sem verður í höndum Búnaðarstofu Matvælastofnunar.

Einnig verður gripið til aðgerða til þess að skilgreina þarfir og spurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti, nánar tiltekið verður komið á fót svokallaðri „innanlandsvog“ til þess og Matvælastofnun falið að gera áætlun um hve mikið kjöt muni líklega seljast innanlands, eitt ár fram í tímann.

Í fréttatilkynningu segir að breytingarnar á samningnum muni ekki kalla á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Þar er einnig haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni ráðherra landbúnaðar að samkomulagið muni styrkja grundvöll íslenskrar sauðfjárræktar.

Frá undirritun samkomulagsins í dag.
Frá undirritun samkomulagsins í dag. Ljósmynd/Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti

„Sérstaklega er ánægjulegt að stuðlað verður að meira jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir en það hefur verið einn helsti vandi greinarinnar undanfarin ár. Jafnframt má nefna þá ánægjulegu breytingu að við veitum bændum meira frelsi með sérstökum aðlögunarsamningum til að nýta tækifæri framtíðarinnar – bændum og neytendum til heilla,“ segir Kristján Þór.

Dregið úr framleiðsluhvata stuðningsgreiðslna

Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, lýsir sömuleiðis yfir ánægju með samkomulagið og segir mikilvægt að í því felist ferlar til að takast á við sveiflur í rekstrarumhverfi sauðfjárræktarinnar og að dregið sér úr framleiðsluhvata stuðningsgreiðslna.

„Eftir sem áður er stefnt að því að jafna stöðu bænda sem starfa innan samningsins og draga úr kostnaði greinarinnar af kerfinu. Þá eru samningsaðilar sammála um mikilvægi þess að ná fram hagræðingaraðgerðum innan afurðageirans, að því marki verður áfram að vinna. Ég tel að þær breytingar sem samkomulagið felur í sér sé jákvætt skref sem muni styðja við aukna verðmætasköpun afurða. Þá er einnig ánægjuegt að samhliða þessu samkomulagi hefur ríkisstjórnin ákveðið að hefja kolefnisverkefni í samstarfi við sauðfjárbændur. Gæði, fagmennska og heilnæmi er aðalsmerki okkar sauðfjárbænda og á þeim styrkleikum ætlum við að byggja til framtíðar,“ er haft eftir Oddnýju í fréttatilkynningu.

Nánar um málið á vef stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka