Mikil uppbygging er fyrirhuguð á lóðinni Suðurlandsbraut 34 / Ármúla 31, sem er í eigu Reita fasteignafélags. Gert er ráð fyrir að lóðin geti rúmað 4-500 íbúðir ásamt húsnæði fyrir atvinnustarfsemi. Iðnaðarhúsnæði sem fyrir er við Ármúla mun víkja fyrir þessari uppbyggingu, en gert er ráð fyrir að Orkuhúsið svokallaða muni standa áfram.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson forstjóri Reita skrifuðu undir viljayfirlýsingu um samstarfið rétt í þessu, en undirskriftin fór fram á efstu hæð Orkuhússins, með yfirsýn yfir byggingarsvæðið.
„Þetta er stór og mikilvægur uppbyggingarreitur í borginni sem stendur meðfram fyrsta áfanga borgarlínu. Það er mikilvægt að samstaða er um að stefna að fjölbreyttri, spennandi og blandaðri byggð. Suðurlandsbrautin er hryggjarstykkið í nýjum þróunarási borgarinnar sem nær frá Hlemmi upp að Ártúnshöfða þannig að þetta eru mikilvæg tímamót og verkefni sem vonandi mun gefa tóninn á svæðinu,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni í fréttatilkynningu.
„Reitir hafa í nokkurn tíma haft áform um að nýta betur stóra lóð félagsins sem stendur á mikilvægum reit á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar,“ segir Guðjón Auðunsson forstjóri Reita.
„Að mati félagsins er staðsetning lóðarinnar afar vel til þess fallin til að þróa þar blandaða byggð sem felur í sér aukna áherslu á íbúðir í bland við atvinnuhúsnæði. Þá mun fyrirhuguð uppbygging njóta góðs af nálægð við þjónustu í Skeifunni og Glæsibæ sem og við útisvistarsvæði í Laugardal, íþróttir og ekki síst samgöngur, þar sem borgarlínunni er ætlað að liggja um Suðurlandsbraut.“
Í viljayfirlýsingu kemur fram að deiliskipulag fyrir svæðið verði endurskoðað í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og verða þrjár arkitektastofur fengnar til að vinna hugmyndir að breyttu skipulagi. Gert er ráð fyrir að lóðin verði minnkuð við Suðurlandsbraut vegna fyrirhugaðrar legu borgarlínu, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Áform sem voru kynnt í borgarráði í desember miða við blandaða byggð og að heildarbyggingarmagn á lóðinni verði að lágmarki 45.000 fermetrar, íbúðir verði 400 til 500 talsins og atvinnuhúsnæði 5-6.000 fermetrar.
Endanlegt byggingamagn, útfærsla og gerð húsnæðis mun taka mið af fyrirhugaðri hugmyndasamkeppni um skipulag lóðarinnar. Uppbygging á lóðinni verður í samræmi við markmið og í anda húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar þannig að um 15% íbúða á lóðinni verða leiguíbúðir, íbúðir Félagsbústaða, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða.
Þegar deiliskipulagshugmynd liggur fyrir verður uppbyggingin útfærð nánar og tímasett, sem og gengið frá samkomulagi um greiðslur, kauprétt og kvaðir. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við uppbyggingu á lóðinni geti hafist innan tveggja ára frá því nýtt deiliskipulag hefur verið samþykkt.