„Það er með öllu óheimilt að eyða svona gögnum og þarna var meira að segja afritunum eytt,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, í samtali við mbl.is um hugsanleg lögbrot vegna meðferð skjala tengd Braggamálinu.
„Í skýrslu innri endurskoðunar er fullyrt að lög hafi verið brotin hvað varðar meðferð skjala,“ bætir hann við.
„Við höfum óskað eftir því að borgarskjalavörður kæmi inn á fund borgarráðs og kynnti málin,“ segir Eyþór, en tillaga þess efnis að borgarskjalavörður, Svanhildur Bogadóttir, kæmi á fund borgarráðs var hafnað á fundi ráðsins í gær.
Eyþór segist hafa rætt við borgarskjalavörð, meðal annars um að hún þyrfti að skoða þetta mál og koma fyrir borgarráð sem allra fyrst þar sem mikilvægt er að tryggja að skjalavarsla verði í samræmi við lög.
„Ef menn eyða bara út úr tölvunum erum við bara ekki með neitt. Það verður að hætta að eyða tölvupóstum á meðan skjalavarslan er ekki nein,“ segir hann.
„Við leggjum áherslu á að fá Borgarskjalasafnið til þess að finna út úr því hvernig stendur á því að skjöl voru ekki til og eytt. Þegar það liggur fyrir þá verða menn að taka afstöðu til þess hvað er gert,“ svarar Eyþór spurður hvort ekki beri að vísa málinu til sakamálarannsóknar ef fullyrt er um lögbrot í málinu.
Hann segir mikilvægt að upplýsa málið frekar og að ekki sé tímabært að vísa málinu til formlegrar rannsóknar vegna meintra lagabrota.
Oddvitinn segist ekki trúa öðru en að farið verði á leit við að svara ósvöruðum spurningum varðandi skjalavörslu borgarinnar, þegar blaðamaður spyr hvert framhald málsins verði ef því verður hafnað að skoða málið frekar á fundi borgarstjórnar í næstu viku.