„Ég sá ekki hver var að lemja hvern“

Dawid Kornacki í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dawid Kornacki í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert

Dawid Kornacki, sem ákærður er fyrir sérstaklega hættulega árás ásamt þremur öðrum gegn dyraverði fyrir utan skemmtistaðinn Shooters í lok ágúst, segir að mennirnir hafi ekki komið aftur á Shooters í þeim tilgangi að útkljá mál sín við dyraverðina.

Dawid og Artur Pawel Wisocki eru ákærðir fyrir árásina en auk þess er Artur ákærður fyrir stórfellda líkamsárás sem olli því að dyravörður lamaðist fyrir neðan háls.

Artur lýsti því við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur að dyraverðirnir hefðu verið óvinalegir við mennina á staðnum, sem hefði endað með því að þeim var hent út. Dawid tók undir það. „Við vorum ekki sáttir við framkomu dyravarðanna í garð okkar.“

Engin pæling á bak við endurkomuna á Shooters

Spurður hvers vegna þeir hefðu ákveðið að fara aftur á Shooters eftir að hafa verið á Hressó sagði Dawid að það hefði ekki verið nein sérstök pæling á bak við ákvörðunina. 

Þegar þangað kom má sjá á eftirlitsmyndavélum að Dawid, Artur og félagar virtust ógnandi og réðust á dyraverðina rétt fyrir utan staðinn. „Við vorum að forvitnast hvort við mættum fara aftur inn og þá kom til orðaskipta milli okkar og dyravarðanna,“ sagði Dawid þegar hann var beðinn að lýsa því sem gerðist við komuna aftur á Shooters. Hann ítrekaði að þeir hefðu ekki farið aftur á Shooters til að ganga í skrokk á dyravörðunum.

Ítrekaði að hann hefði ekki veitt höfuðhögg

Við þing­fest­ingu máls­ins í des­em­ber játuðu Dawid og Artur sök í fyrri lið ákæru. Með því að játa fyrri ákæru­lið er geng­ist við því að hafa veist að öðrum brotaþol­an­um, þeim sem ekki hlaut lífs­hættu­lega áverka. 

Við þing­fest­ingu voru bóta­kröf­ur tengd­ar fyrri ákæru­lið samþykkt­ar af hvor­um tveggja hinna ákærðu, þó með þeim hætti að upp­hæðin sjálf verði lögð aft­ur í mat dóms­ins en ekki samþykkt eins og hún er, en kraf­an er upp á 2,5 millj­ón­ir króna.

Dawid stóð við þetta í dag en tók fram að hann hefði ekki veitt neitt höfuðhögg.

Á upptökum má sjá hann í félagi við þrjá aðra berja dyravörð fyrir utan staðinn. Á sama tíma sést Artur elta dyravörð í gegnum staðinn. Dawid sagðist halda að þeir hefðu verið fjórir gegn dyraverðinum en hefði ekki verið að telja. „Ég sá ekki hver var að lemja hvern,“ sagði Dawid og bætti aðspurður við að hann hefði ekkert hugsað út í það þegar hann sá Artur hlaupa á eftir dyraverðinum í gegnum staðinn.

„Artur fór eldsnöggt inn og ég var ekkert að pæla í því.“

Verjandi Dawids spurði hann um stöðu hans hér á landi en Dawid hefur verið við vinnu hér á landi í um eitt og hálft ár og á konu og fimm börn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert