Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifar í vikulegum pistli sínum um slysið sem varð í vikunni þegar ekið var á 13 ára stúlku sem var á gangi við Hringbraut.
Hann segir að fyrir nokkrum áratugum hafi það verið hluti af fréttum ársins þegar börn létust í umferðarslysum í Reykjavík. „Með því að lækka hraða í íbúagötum, þrengja götur, fjölga hraðahindrunum, bæta lýsingu og merkingar, eru banaslys af þessu tagi nánast úr sögunni. Í vikunni vorum við þó óþyrmilega minnt á það að stundum getur litlu munað, þegar keyrt var á barn á Hringbraut við Vesturbæjarskóla,“ skrifar hann.
Dagur bætir við að borgin hafi brugðist við með því að fjármagna gangbrautarvörslu. Engu að síður þurfi að finna framtíðarlausn. Allar rannsóknir sýni að hraðalækkun sé sú aðgerð sem skipti mestu máli til að fækka slysum.
„Hringbrautin er í þéttri byggð og er hraði þar of mikill miðað við aðstæður og nútímaviðhorf. Það var niðurstaða skýrslu á vegum borgarinnar sem kom út árið 2017 um hraðaminnkandi aðgerðir vestan Kringlumýrarbrautar að farsælast væri að lækka hámarkshraða á þessum kafla Hringbrautar.“
Borgarstjóri vonast til að á samráðsfundi með Vegagerðinni, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og íbúasamtökum í Vesturbænum náist samstaða um niðurstöðu. „Hraðbrautir eiga ekki heima í þéttum íbúðahverfum.“
Í pistli sínum minnist hann einnig á landsleikinn í handbolta sem fór fram fyrr í kvöld þar sem Krótaía bar sigurorð af Íslandi. „Það var hrikalega svekkjandi að tapa fyrir gríðarsterku liði Króata í fyrsta leik strákanna okkar á heimsmeistaramótinu í handbolta rétt í þessu. Ég vil hins vegar hrósa liðinu fyrir góðan leik og mikla baráttu. Hef fulla trú á því að framhaldið á mótinu verði spennandi. Og þjóðin stendur að sjálfsögðu þétt að baki strákunum og Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara.“