Sérfræðingur í taugalækningum sem starfar á Grensásdeild segir að dyravörðurinn sem hlaut mænuskaða eftir árás á skemmtistaðnum Shooters 26. ágúst í fyrra hafi verið mjög verkjaður og algjörlega ósjálfbjarga þegar hann kom á endurhæfingardeildina mánuði eftir atvikið.
Læknirinn lýsti því við aðalmeðferð Shooters-málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur að dyravörðurinn hafi verið með enn minni hreyfigetu í lok september en núna.
Hann hlaut áverka á fimmta hryggjarlið og er með það sem kallast alskaða á mænu. „Það eru engin merki um hreyfigetu eða skynjun neðan skaða sem mun nokkurn tímann gagnast honum,“ sagði læknirinn.
Hann sagði dyravörðinn vera í afneitun vegna ástandsins og eigi erfitt með að sætta sig við hvernig komið er fyrir honum. „Hann vonast til að það komi einhver hreyfigeta,“ sagði læknirinn og bætti við að það væru sáralitlar eða engar líkur á aukinni hreyfigetu.
„Hann á erfitt með að kyngja því að hann verði ósjálfbjarga það sem eftir er.“
Hann sagði að endurhæfingin á Grensásdeild gengi út á breytt daglegt líf hans vegna mænuskaðans. Hann þurfi aðstoðarfólk nánast allan sólarhringinn og þurfi að notast við rafmagnshjólastól. „Hann þarf aðstoð við nánast allt. Það er mjög takmarkað sem hann getur gert sjálfur,“ sagði læknirinn og bætti við að löng og ströng endurhæfingarvinna væri fram undan.
Læknir sem starfaði sem sérfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans þegar dyravörðurinn kom þangað eftir árásina á Shooters sagði að maðurinn hafi verið vakandi og skýr. Hann hafi kvartað undan verkjum og hreyfði ekki útlimi við komuna á spítalann.