Barnaspítali Hringsins er með viðamikla rannsókn í gangi á veikindum barna fram að fjögurra ára aldri og hvaða áhrif sjúkdómarnir hafa á foreldra og aðra aðstandendur.
„Mjög mikilvægt er að flestir foreldrar nýfæddra barna taki þátt í rannsókninni og hafi úthald til þess í langan tíma til þess að niðurstöðurnar verði sem áreiðanlegastar,“ segir Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir, prófessor í barnalækningum og forstöðumaður fræðasviðs Barnaspítala Hringsins.
Rannsóknin kallast VOFFI, sem stendur fyrir „Veikindi og fjarvistir fjölskyldna á Íslandi“. Ásgeir og Valtýr Stefánsson Thors barnalæknir hafa umsjón með rannsókninni, en gagnasöfnun hófst fyrir um ári.
„Fyrir okkur vakir að reyna að meta hvað veikindi ungra barna valda miklu álagi,“ segir Ásgeir. Hann bendir á að hægt sé að nálgast tölur um til dæmis innlagnir á sjúkrahús, en í mörgum tilfellum séu veik börn heima og fólk missi úr vinnu og skóla þess vegna. Upplýsingar þar að lútandi séu ekki til.
Sjá samtal við Ásgeir í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.