Artur Pawel Wisocki, sem ákærður er fyrir stórfellda líkamsárás og að hafa hrint dyraverði á skemmtistaðnum Shooters 26. ágúst, neitar því að hafa hrint fórnarlambinu með þeim afleiðingum að það lamaðist. Hann játar annan hlut ákærunnar; sérlega hættulega líkamsárás gegn öðrum dyraverði.
Artur sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur að dyraverðir á Shooters hefðu sýnt sér og félögum sínum dónaskap um leið og þeir komu á staðinn. Fljótlega hefði einum Pólverjanum verið hent upp og þá hefði andrúmsloftið milli dyravarðanna og Arturs og félaga hans orðið rafmagnað.
„Við stóðum upp en einn af dyravörðunum tók upp kylfu og fór að banka henni í vegg á ögrandi hátt,“ segir Artur og bætir við að bjór félaganna hafi verið stolið. „Á meðan sótti einn af dyravörðunum fleiri félaga sína til að geta hent okkur út af staðnum.“
Þaðan hafi félagarnir farið á Hressó en komið skömmu síðar aftur á Shooters. Artur segist ekki hafa neina hugmynd um hvers vegna þeir fóru aftur þangað. „Það var engin áætlun og þetta er það sem ég sé mest eftir,“ sagði Artur.
Hann segir að þegar þeir komu til baka hafi komið til ryskinga milli þeirra og dyravarða við Shooters. „Einn af þessum dyravörðum hleypur í burtu og ég fer á eftir honum,“ segir Artur en hann er ákærður fyrir að hafa hrint honum en dyravörðurinn er lamaður fyrir neðan háls eftir árásina.
„Við duttum bara báðir en það var mjög dimmt þarna. Ég var ölvaður en veit að það er engin afsökun. Þetta var ein sekúnda og allt gerist svo hratt,“ sagði Artur sem var ítrekað spurður hvort hann hefði hrint dyraverðinum en hann neitaði því.
Hann segist ekki hafa neina hugmynd um af hverju hann elti dyravörðinn sem lamaðist inn í gegnum staðinn. „Ég hef enga hugmynd. Þetta var það heimskulegasta sem ég hef gert á ævinni.“
Artur kveðst hafa staðið upp eftir að hann og dyravörðurinn féllu og hafi aðstoðað félaga sína gegn hinum dyraverðinum áður en þeir yfirgáfu staðinn.
Spilaðar voru upptökur frá kvöldinu þar sem sjá má ákærðu, Artur og Dawid, koma aftur á Shooters og virka ógnandi. Þar sést Artur elta dyravörðinn í gegnum staðinn en greint var á um hvort Artur sæist hrinda honum. Saksóknari sagði það greinilegt en Artur ítrekaði að hann hefði verið að reyna að verja sig falli.
„Ég reyndi frekar að grípa hann en hrinda,“ sagði Artur. Hann sagði að sér liði mjög illa vegna atburðanna.
„Mér hefur aldrei liðið svona illa. Ég hugsa stanslaust um þetta, get ekki sofið og iðrast mjög mikið. Ég biðst afsökunar.“