Stefnt er að almennu banni við notkun á svartolíu í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 til 2030 er meðal annars sett fram áætlun um hvernig draga á úr notkun svartolíu og nota aðra orkugjafa hennar í stað.
Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um brennslu svartolíu og afgass skipavéla.
„Stefnt er að minnkun á svartolíunotkun við strendur Íslands með breytingum á lögum og/eða reglugerðum með það að markmiði að fasa notkun svartolíu endanlega út,“ segir í aðgerðaáætluninni.
Í svari ráðherra segir jafnframt að íslenski fiskaskipaflotinn noti aðallega skipagasolíu og skipadísilolíu sem eldsneyti á aðalvélar fiskiskipa. Þó brenni nokkur skip svartolíu, sem sé gjarnan notuð á stærri og aflmeiri vélar, en þeim fari fækkandi.