Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp sem á að gera tillögur að skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum. Starfshópur hefur þegar skilað tillögum vegna slíkrar meðferðar í heilbrigðisumdæmum Vestfjarða, Austurlands og Norðurlands.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Starfshópnum er ætlað að taka saman yfirlit yfir þá þjónustu sem stendur sjúklingum til boða sem hafa þörf fyrir líknar- og lífslokameðferð og búa í ofantöldum landsvæðum. Þá mun hann gera tillögur um skipulag og framkvæmd líknar- og lífslokameðferðar á svæðunum og gera áætlun um kostnað við undirbúning og rekstur í samræmi við tillögurnar.
Berglind Víðisdóttir mun leiða hópinn sem formaður. Aðrir fulltrúar eru Valgerður Sigurðardóttir, tilnefnd af Landspítala, Rún Halldórsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Sigurður Árnason, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Anna María Snorradóttir sem er tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þá mun Helga Harðardóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu starfa með hópnum.
Gert er ráð fyrir því að hópurinn skili heilbrigðisráðherra tillögum fyrir 1. júní 2019.