Dyravörður sem varð fyrir árás fyrir utan skemmtistaðinn Shooters 26. ágúst segist hafa fengið „mikið sjokk“ þegar hann sá félaga sinn liggja hreyfingarlausan eftir slagsmál við hóp manna.
Tveir menn eru ákærðir fyrir líkamsárásir gegn tveimur dyravörðum en annar dyravarðanna er lamaður fyrir neðan háls. Skýrsla verður tekin af honum á Grensásdeild Landspítala í hádeginu. Hinn dyravörðurinn greindi frá því hvernig atburðirnir horfðu við honum í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi.
Artur Pawel Wisocki er ákærður fyrir tvær líkamsárásir og Dawid Kornacki er ákærður fyrir hlut sinn í árásinni gegn dyraverðinum sem kom fyrir dóminn. Sá sagði að dyraverðirnir hefðu lent í vandræðum með hóp manna. Þeim hefði verið hent út eftir að einn þeirra reyndi ítrekað að fara út af staðnum með glerglas, sem maðurinn sagði að væri bannað.
Við það hefðu mennirnir reiðst, haft í hótunum við dyraverðina og sagt að þeir myndu snúa aftur. Hann telur að um hálftími hafi liðið áður en mennirnir sneru aftur á Shooters.
„Þá komu fimm eða sex menn og það var kallað á mig en ég var á klósettinu en vinur minn, sá sem lamaðist, kallaði eftir aðstoð,“ sagði dyravörðurinn.
„Ég kom fram og sá að einn af þeim ætlaði að berja vin minn. Vinur minn hljóp í burtu og ætlaði að reyna að fá aðstoð. Þrír menn börðu mig fyrir utan staðinn en ég reyndi að koma í veg fyrir að þeir færu inn á hann. Maðurinn sem lamdi vin minn [Artur] kom til baka og réðst á mig líka,“ sagði maðurinn. Hann bætti því við að Artur hefði lamið sig í hnakkann.
„Ég var umkringdur fjórum mönnum sem lömdu mig af alefli,“ sagði dyravörðurinn.
Árásarmennirnir hefðu á endanum yfirgefið svæðið og þá hefði hann séð vin sinn liggjandi inni á staðnum. „Ég var í sjokki þegar ég sá vin minn liggjandi og vissi ekki hvort hann væri á lífi eða ekki,“ sagði maðurinn og bætti því við að vinur hans hefði beðið um aðstoð.
Hann sagði afleiðingar árásarinnar miklar fyrir sig en hann hefði átt erfitt með svefn í kjölfar hennar og fengi oft mikinn höfuðverk. Hann hefði ekki getað stundað vinnu sína sem skyldi og af þeim sökum verið rekinn.
Spurður um andlega líðan sína í dag sagði maðurinn að hún væri slæm. „Ég trúi ekki að þetta hafi komið fyrir besta vin minn sem var eins og bróðir minn.“