Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, hefur óskað eftir því að fá Vegagerðina á fund nefndarinnar til að ræða málefni Hringbrautar og öryggismál þar.
Frá þessu greinir Rósa á samfélagsmiðlum.
Ég hef óskað eftir því að fá Vegagerðina á fund umhverfis-og samgöngunefndar Alþingis til að ræða málefni Hringbrautar og öryggismál þar. Vegagerðin er veghaldari Hringbrautar enda þjóðvegur í þéttbýli. Öryggi gangandi verður alltaf að vera tryggt,hver sem ber ábyrgð á veginum.
— Rósa Björk B (@RosaBjorkB) January 12, 2019
Í samtali við mbl.is segir Rósa að kveikjan að fundarboðinu sé slysið sem átti sér stað í vikunni sem líður þegar ekið var á unglingsstúlku á gatnamótum Meistaravalla og Hringbrautar, en nefnir einnig að fleiri umferðaróhöpp hafi átt stað þar í kring.
„Mér finnst mjög brýnt að fá að heyra sjónarmið og afstöðu Vegagerðarinnar varðandi öryggismál á Hringbrautinni þar sem Vegagerðin er veghaldari Hringbrautar. Við þurfum að fá að heyra hvað Vegagerðin segir um hvernig megi tryggja sem mest öryggi vegfarenda,“ segir Rósa segir í samtali við mbl.is.
Þingfundir hefjast að nýju eftir jólafrí mánudaginn 21.janúar en í vikunni eru nefndadagar hjá fastanefndum Alþingis. Rósa segist vilja fá Vegagerðina á fund samgöngunefndar sem fyrst og bætir við: „Mér finnst það vera knýjandi. Þarna er um mjög fjölmennt íbúðahverfi að ræða og hjúkrunarheimili og barnaskóli við. Þar eru börn að þvera götuna án leiðsagnar og við þurfum því að fá að heyra hvaða hugmyndir Vegagerðin hefur í öryggismálum.“