„Eftir hverju erum við að bíða?“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fjallar um niðurstöður tilraunverkefnis um …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fjallar um niðurstöður tilraunverkefnis um styttingu vinnuvikunnar á málþingi í Hörpu í dag. mbl.is/Hari

„Allir þessi neikvæðu þættir sem vil viljum sjá dragast saman eru að gera það og allir þessu jákvæðu þættir sem við viljum að hækki eru að gera það,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um niðurstöður rannsóknar á tilraunaverkefni ríkisins á styttingu vinnuvikunnar. Þættirnir sem Sonja vísar til eru meðal annars álag og streitueinkenni sem hafa minnkað og starfsánægja og starfsandi sem hefur aukist.

Sonja fjallar um niðurstöðurnar, sem verða aðgengilegar í heild sinni á næstu dögum, undir yfirskriftinni: „Eftir hverju erum við að bíða?“ á málþingi um styttingu vinnuvikunnar sem fram fer í Hörpu í dag. Einnig mun hún fara yfir hvernig til hefur tekist í þeim tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar annars vegar hjá borginni og hins vegar hjá ríkinu. Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, stendur fyrir málþinginu og er markmið þess að auka skilning á þeim möguleikum sem stytting vinnuvikunnar hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag.

Í stefnu BSRB, sem mótuð var á þingi bandalagsins í október, var samþykkt að lögfesta þurfi styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu án launaskerðingar, en jafnframt að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80 prósent af vinnutíma dagvinnufólks.

Fimm ríkisstofnanir styttu vinnuvikuna

Sonja mun fjalla um niðurstöðurnar úr tilraunaverkefni ríkisins en niðurstöðurnar eru sambærilegar verkefni Reykjavíkurborgar. Verkefni ríkisins hófst 2015 þegar fjármálaráðherra veitti verkefninu vilyrði á þingi BSRB. Í framhaldinu var skipaður starfshópur og 2017 var vinnustundumfækkað úr 40 í 36 á fjórum vinnustöðum hjá ríkinu, það er Þjóðskrá, Útlendingastofnun, Lögreglustjóranum á Vestfjörðum og Ríkisskattstjóra. Fyrstu niðurstöður voru kynntar í fyrra og sýndu þær jákvæðan árangur. Verkefnið var framlengt og Lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands var bætt við, en þar er unnin vaktavinna. Verkefninu lýkur síðar á þessu ári.

Niðurstöður verkefnisins benda til þess að einkenni álags, líkamlegs og andlegs, hjá starfsfólki minnkar og það finnur fyrir betri líðan í vinnu og á heimilinu. Þá hefur dregið úr kulnun á þeim vinnustöðum sem tóku þátt í verkefninu. „Ef maður skoðar kulnun í samhengi við tölur um að fólk upplifi minni líkamleg og andleg streitueinkenni þá er það auðvitað eitthvað sem hefur áhrif á kulnun. Svo sér maður það líka í rýnihópaviðtölunum að fólk upplifir heilt yfir að það hafi meiri orku og það sé minna stressað,“ segir Sonja.  

Grafík/mbl.is

Starfsánægja hefur sömuleiðis aukist meðal starfsmanna, eða úr 3,99 í 4,20 á fimm punkta kvarða, og starfsandi jókst einnig lítillega, eða úr 4,15 í 4,29. Þá hafa árekstrar vinnu og einkalífs einnig farið minnkandi og jafnvægi vinnu og einkalífs aukist.

Grafík/mbl.is

Sonja segir að það sem hafi ef til vill komið mest á óvart í niðurstöðunum er að jákvæðir þættir, líkt og starfsánægja og starfsandi, halda áfram að aukast eftir því sem líður á verkefnið. „Það er ekki stöðnun eftir að verkefnið er hafið, aukningin heldur áfram eftir sex mánuði og svo aftur eftir tólf mánuði þannig það verður áhugavert að sjá hver þróunin verður eftir átján mánuði,“ segir hún.

Grafík/mbl.is

Óbreytt afköst þrátt fyrir styttri viðveru

Í niðurstöðunum kemur jafnframt fram að stytting vinnuvikunnar hefur ekki áhrif á afköst í starfi. Þrátt fyrir styttri viðveru haldast afköstin óbreytt og er það ein megin ástæða þess að BSRB fer fram á að vinnuvikan verði stytt án launaskerðingar. „Áhrifin eru jákvæð án þess að hafa áhrif á afköstin. Á dagvinnustöðum á þetta ekki að þurfa að kosta meira en smá skipulagningu,“ segir Sonja.

Fleiri jákvæðar niðurstöður má finna í niðurstöðunum, svo sem að starfsmenn hafa aukna orku í leik og starfi og álag sem fylgir starfinu minnkar. Þá eru starfsmenn almennt minna fjarverandi vegna veikinda. Sonja segir að því sé ekki eftir neinu að bíða og ljóst er að stytting vinnuvikunnar verði eitt af forgangsverkefnum í kjaraviðræðum BSRB þegar samningar aðildarfélaganna losna í lok mars. „Aðildarfélögin eru ekki búin að gera sínar kröfugerðir en á þinginu okkar í október var alveg ljóst að þetta er eitt af stóru málunum okkar og er forgangsverkefni. Maður finnur það líka í umræðunni og undirbúningi þeirra fyrir kjaraviðræðurnar að þetta mun rata mjög ofarlega,“ segir hún.

Stór breyting á vinnutímaskipulagi krefst samstarfs

Þá segir hún að það komi til greina að vinna að styttingunni í samvinnu við félög á almennum vinnumarkaði. „Það er vilji fyrir því að ef við ætlum að gera svona stóra breytingu á vinnutímaskipulagi á Íslandi að við tölum okkur saman, félögin á opinbera markaðnum og á almenna vinnumarkaðnum, það er eitt af því sem er til skoðunar.“

Sonja segir að tími breytinga sé löngu kominn, en tæp hálf öld er síðan ákveðið var á Alþingi að vinnuvikan skyldi vera 40 stundir. Sonja hvetur til þess að árið 2019 verði árið sem vinnuvikan verður stytt. „Það er bara eins og við höfum gleymt að hugsa þetta aftur út frá tækniþróuninni. Af hverju erum við ekki að velta fyrir okkur að við erum að vinna skipulegar af því að við getum afkastað meira á minni tíma? Þessi tilraunaverkefni sýna það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert