Heildarfjöldi fíkniefnabrota jókst lítillega milli áranna 2017 og 2018, eða um 5%. Ef litið er til síðustu þriggja ára fjölgaði brotunum um 15%. Lagt var hald á töluvert meira magn af maríjúana í færri málum árið 2018 heldur en 2017. Þar munar mest um stórframleiðslu þar sem lagt var hald á yfir 17 kg. af efninu.
Lagt var hald á töluvert minna magn af amfetamíni árið 2018 en árið á undan en fleiri e-töflur þegar horft er á þær í stykkjatali. Minna var tekið af kókaíni en árið 2017 en þá var sérstaklega mikið tekið af því efni. Magnið af kókaíni var töluvert meira árið 2018 en árin fyrir 2017.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild, segir flest málin af svipuðum toga. Skiptast þau helst annars vegar í svokölluð burðardýr sem koma til landsins með um 300 til 600 grömm og hins vegar pakkningar sem geta þá innihaldið nokkur kílógrömm.
„Mesta aukningin í þessu er raunverulega þessi stórbreyting á fjölda þeirra sem teknir eru við akstur undir áhrifum. Það liggur við það séu fleiri teknir fyrir fíkniefnaakstur en ölvunarakstur. Það er sláandi staðreynd,“ segir Karl Steinar spurður um fjöldann. „Þetta skýrir engan massa samt. Sá sem er að aka er kannski með dagskammt eða einhver grömm á sér en ekki með kíló.“
Karl Steinar segir hins vegar að magnið af hassi sem hefur verið lagt hald á síðustu tvö ár sé athyglisvert þar sem svo virðist sem Ísland sé notað sem stoppistöð fyrir hass á leið til Grænlands frá Danmörku. „Miðað við okkar upplýsingar þá telja menn að það sé í einhverjum tilvikum öruggara að smygla hassi í gegnum Ísland með einhverjum hætti en að fara beint. Nota sér samgöngurnar milli Íslands og Grænlands.“ Hann segir ekkert benda til þess að hassneysla sé að aukast til muna hér á landi. Þá var neysla á kannabis eða maríjúana svipuð í fyrra og síðustu ár en kókaínneysla hefur aukist talsvert mikið á síðustu árum. Hann bendir einnig á að þrátt fyrir að magnið af amfetamíni virðist minna í fyrra þá virðist það haldast í hendur við aukningu á e-töflum. „E-töflurnar fara upp núna og þá fer amfetamínið niður. Þetta eru oft á tíðum sömu neytendur.“
Alls voru haldlögð 28 gr. af heróíni á Íslandi í fyrra. Að sögn Karls Steinars er það eitthvað mesta magn af heróíni sem hefur verið haldlagt hingað til. „Ég hef svolítið áhyggjur af þessari þróun og hver þróunin í ár verður í framhaldinu af þessu,“ segir Karl Steinar. Hingað til hefur verið lagt hald á heróín einstaka sinnum í minni pakkningum en í fyrra komu upp nokkur mál. „Við erum svolítið hugsi yfir þessu vegna þess að til viðbótar við þetta hefur heróín verið stöðvað erlendis á leið til Íslands eða heróín sem átti að senda um Ísland,“ segir Karl Steinar. „Í dag erum við því miður komin með grundvöll fyrir það að mönnum myndi detta í hug að fara að flytja inn heróín og eiga það. Einn þátturinn í heróíni er að þú þarft að geta verið með stöðugt framboð af efninu. Sumir vilja meina það að ástæðan fyrir að það hefur ekki komið hingað fyrr sé einfaldlega það að á Íslandi sé auðveldara aðgengi að lyfjum sem menn eru oft neyta í staðinn fyrir heróín, t.d. Contalgini.“
Karl Steinar bendir á að mikið hefur verið rætt um aukið flæði af heróíni og þá vegna aukinnar framleiðslu ópíums í Afganistan. Slík aukin framleiðsla gæti mögulega haft áhrif hingað.
„Það gerir það að verkum að framboðið í Evrópu mun aukast almennt mjög mikið. Þannig að það er eitthvað sem menn hafa haft áhyggjur af.“