Karl Gauti sár og hefndargjarn

Inga Sæland segja grein Karls Gauta í Morgunblaðinu bera vott …
Inga Sæland segja grein Karls Gauta í Morgunblaðinu bera vott um særindi og hefndargirni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst þetta mest lýsa höfundi og hans hugsjón gagnvart Flokki fólksins. Þetta virkar á mig sem særindi og hefndargirni,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is um gagnrýni Karls Gauta Hjaltasonar, þingmanns, sem birt var í Morgunblaðinu í dag.

Karl Gauti, sem var áður þingmaður Flokks fólksins, hefur sakað flokkinn um óvandaða meðferð fjármuna og að ekki sé forsvaranlegt að formaður flokksins, Inga, sitji yfir fjárreiðum hans sem gjaldkeri og prókúruhafi. Einnig sagði hann óeðlilegt að fjölskyldumeðlimur formannsins skuli starfa fyrir flokkinn.

„Málið er það að þeir [Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson] voru aldrei sáttir við það hvað ég sat á hverri krónu eins og ormur á gulli,“ segir Inga sem vísar til þess að mikið af starfi flokksins hafi verið unnið í sjálfboðavinnu.

Hún harmar að verið sé að ala á tortryggni í garð flokksins og segist ekki lengur gjaldkeri flokksins. „Ég hætti því ekki þegar greinin hans Gauta birtist, ég hætti því fyrir mánuði síðan.“

Illgirni og andúð

Varðandi aðkomu fjölskyldu hennar að starfi flokksins segir Inga son sinn hafa unnið síðasta vor launalaust sem sjálfboðaliði fyrir flokkinn. Spurð hvort hann hafi einhvern tíma þegið laun frá flokknum, segir Inga hann nú vera orðinn fastráðinn starfsmann.

„Það var ekki ég sem réð hann, ég greiddi ekki atkvæði um það,“ segir formaðurinn. Hún útskýrir að kjördæmaráð og stjórn flokksins hafi öll haft aðkomu að ráðningunni.

Inga segir sinn flokk ekki hafa neitt að fela og býður blaðamanni að koma og skoða bókhald flokksins.

Hún bætir við að Flokkur fólksins hafi þurft að þola illgirni og andúð. „Það er alstaðar fólk sem er að grafa undan okkur og skemma fyrir okkur. Við verðum bara að standa af okkur svona holskeflu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert