Pétur G. Markan sagði starfi sínu lausu sem sveitarstjóri Súðavíkurhrepps á fundi bæjarstjórnar sem fór fram í gær. Pétur hóf störf fyrir Súðavíkurhrepp árið 2014.
Þetta kemur fram í fundargerð sveitarfélagsins.
Þar segir Pétur að tíminn hafi liðið „á ljóshraða krefjandi verkefna, ánægjulegra kynna, sigra og stundum erfiðra tímabila.“
„Ég hef, í samráði við fjölskyldu mína, ákveðið að segja starfi mínu lausu sem sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Fram undan eru breytingar hjá fjölskyldunni sem kalla á þessar breytingar á mínum störfum. Það er von mín og vissa að bjart sé yfir framtíð sveitarfélagsins. Mér er efst í huga þakklæti til íbúa Súðavíkurhrepps fyrir að hafa fengið að stýra sveitarfélaginu, sú reynsla er dýrmæt, þakklát og verðmæt. Ég vil þakka sveitarstjórn fyrir samstarfið og óska henni velfarnaðar, hamingju og gleði á komandi tímum, árum og áratugum,“ segir í fundargerðinni.
Oddviti tók við uppsögninni fyrir hönd sveitarstjórnar sem óskaði eftir því að Pétur ynni uppsagnarfrest, sem er þrír mánuðir.
Einnig var fjallað um málið á vef Bæjarins besta í gær.