Íslendingar eru þekktir fyrir að sleikja sólina á Kanarí og fjölmenntu þangað um jól og áramót. Hjónin Esther Magnúsdóttir og Halldór Einarsson í Henson voru í hópnum, en tilgangur Halldórs var annar en allra hinna.
„Ég fór í þessa ferð með það að markmiði að slaka á og mála fimm vatnslitamyndir og þær eru nánast búnar,“ segir hann. Halldór er með marga hatta. Hann hefur verið áberandi í viðskipta- og íþróttalífi landsmanna auk þess sem hann hefur vakið athygli fyrir söng. Hann er listamaður og hefur alla tíð verið drátthagur. Íþróttabúningar, sem hann hefur framleitt í áratugi, bera þess augljós merki.
Hann gerir samt lítið úr listinni og segist einkum mála ánægjunnar vegna. „Ég hef alltaf teiknað mjög mikið og fékk 9,8 í einkunn hjá Jóhanni Briem, listmálara, í Gaggó Vest, en ég teiknaði líka fyrir annan, sem var vonlaus á þessu sviði, og hann fékk 10! Ég fór í Myndlistaskólann, þar sem Hringur Jóhannesson og Veturliði Gunnarsson kenndu mér en ég var sem byrjandi miðað við marga aðra.“
Sjá viðtal við Halldór í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.