„Þetta var ekki rætt við kjósendur“

Félag íslenskra bifreiðaeigenda er ósátt við áform um innheimtu veggjalda.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda er ósátt við áform um innheimtu veggjalda. mbl.is/Golli

„Það er ekkert launungamál að við teljum vegtolla vera meingallaða innheimtuaðferð og við rökstyðjum það með þessum liðum,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í samtali við mbl.is um viðbótarumsögn félagsins við samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Það er verið að koma þarna með hugmyndir um innheimtuaðferðir sem fyrir lítið samfélag eru bara allt of dýrar og útheimta allt of mikla fjármuni,“ segir Runólfur og vísar til alþjóðlegrar KPMG-skýrslu þar sem talið er að innheimtukostnaður sé að lágmarki 15%.

„Þarna erum við að tala um margra milljóna samfélög og meðaltalið er einhvers staðar um 25 til 30%. Það er bara innheimtuhlutfall, ofan á vegtollinn leggst síðan 11% virðisaukaskattur. Þetta eru bara stóraukin útgjöld sem beinast fyrst og fremst að ákveðnum hluta landsins þar sem flestir búa, það skapar ákveðinn ójöfnuð,“ útskýrir framkvæmdastjórinn.

Þá segir hann ríkissjóð þegar taka um 80 milljarða króna á hverju ári af skattgreiðendum fyrir afnot á bíl og þjónustu við bílaeigendur, en aðeins hluti þeirrar upphæðar er nýttur í vegakerfið.

Runólfur segir félagið ekki mótfallið því að innheimtir séu skattar af þeim sem nota vegakerfið, heldur sé spurning um að tryggja að fjármunirnir séu nýttir á sem hagkvæmastan máta.

Runólfur Ólafsson.
Runólfur Ólafsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Skattheimtan aukist

„Bara sem lítið dæmi þá var sett á kolefnisgjald á eldsneyti árið 2010 og gaf þá í ríkissjóð einn milljarð í tekjur það árið. Samkvæmt fjárlögum á þessi skattur að skila 3,715 milljörðum sem er nákvæmlega það fjármagn sem menn eru að tala um að fara út í að afla árlega með vegtollum, til þess að flýta framkvæmdum á suðvesturhorninu,“ segir Runólfur.

En nú leggst væntanlega kolefnisgjald á skipaflotann, flugvélar og alls konar tæki sem nota kolefniseldsneyti og var hugsað til þess að draga úr losun. Það er ekki endilega hugsað til vegaframkvæmda er það?

„Já já, en hugmyndafræðin bak við þau gjöld er það sem þú nefnir, sem er mjög góðra gjalda vert. En það sem við sjáum síðan er að það er ekki eyrnamerkt til ákveðinna verkefna. Þannig að þetta er bara partur af heildartekjum ríkissjóðs,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hann bætir við að einnig megi líta til bifreiðagjaldsins sem hafi verið sett á til eins árs til þess að fylla fjárlagagat.

„Það gefur um átta milljarða tekjur í ríkissjóð, þannig að það hefur verið að auka skattheimtu á bifreiðanotkun. Sérstaklega á almenning. Á sama tíma hefur verið verulegur samdráttur í framlögum til vegaframkvæmda.“

Enginn talaði um vegtolla

Framkvæmdastjórinn setur spurningarmerki við það að umræðan um innheimtu þessara skatta hafi komið upp skyndilega án þess að ítarlega sé rætt um þessar hugmyndir.

Bendir Runólfur á að enginn hafi talað fyrir vegtollum í síðustu kosningum til Alþingis eða í síðustu sveitarstjórnarkosningum. „Þetta var ekki rætt við kjósendur og ekki í ríkisstjórnarsáttmálanum. [...] Við viljum bara að þetta fari í lýðræðislegt ferli og að kjósendur hafi eitthvert val.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert