Teitur Gissurarson
Daði Agnarsson, sem rekur Braggann Bar og Bistro í bragganum í Nauthólsvík, vandar ráðamönnum í borginni ekki kveðjurnar í pistli sem hann birti nýverið á Facebook-síðu sinni. Í pistlinum, sem ber yfirskriftina „Ráðamenn á villigötum“, skrifar Daði um umræðuna sem hefur einkennt Braggamálið og bendir m.a. á að Bragginn sé aðeins eitt hús af þremur, þ.e. Bragginn, frumkvöðlasetur, náðhús og tengibyggingar, ásamt lóðum sem kostnaðurinn í Braggamálinu snýst um.
Þar segir hann stjórnmál oft og tíðum eiga meira sameiginlegt með leikskólabörnum. Þá nafngreinir hann borgarfulltrúana Vigdísi Hauksdóttur og Eyþór Arnalds og segir það hlægilegt að hlusta á þau lýsa Bragganum sem kofaskrifli.
„Ég er ekki að afsaka framkvæmd, kostnað eða skipulag Reykjavíkurborgar í þessu máli. Þvert á móti finnst mér að umræðan ætti að snúast um rétta hluti, hluti sem kosnir fulltrúar hafa á undanförnum mánuðum afbakað og skælt og sér í lagi Vigdís Hauksdóttir,“ er á meðal þess sem segir í pistlinum.
Daði lýsir því einnig að óvægin umræða um vinnustaðinn hafi gert það að verkum að starfsmenn Baggans þurfi að afsaka sinn eigin vinnustað, og þurfi „að svara fyrir mistök annarra, svara fyrir óábyrga umræðu stjórnmálamanna og reyna að útskýra að hvorki þau né þeir aðilar sem koma að rekstri Braggans Bar & Bistró hafa ekkert með þann kostnað, framkvæmdir eða annað sem misfórst í byggingu húsanna að gera.“
Færsluna í heild má lesa hér að neðan en ekki náðist í höfund við vinnslu fréttarinnar.