Tveir karlmenn voru í dag í Héraðsdómi Suðurlands dæmdir annars vegar í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og hins vegar til greiðslu 100 þúsund króna sektar fyrir líkamsárás á hvor annan. Þeir voru enn fremur dæmdir til þess að greiða annars vegar 361 þúsund krónur í sakarkostnað og hins vegar 350 þúsund krónur. Mennirnir játuðu báðir skýlaust brot sín.
Fram kemur í dómnum að annar maðurinn hafi aðfaranótt 16. september 2017 veist að hinum manninum fyrir utan skemmtistaðinn Lundann í Vestmannaeyjum og slegið hann í andlitið og síðan veist að honum að nýju fyrir utan Hótel Vestmannaeyjar.
Þar hafi maðurinn ýtt hinum utan í útihurð hótelsins og slegið hann með vinstri hendi ítrekað í maga, andlit og bak. Skömmu síðar hafi hann sparkað í síðu og maga mannsins þar sem hann lá á fjórum fótum á jörðinni. Leiddi þetta af sér sprungna vör, hrufl á hnakka og mar á vinstra gagnauga.
Hinn maðurinn, sem fyrir þessari árás varð, var dæmdur fyrir að hafa veist að þeim fyrri og slegið hann með vinstri hendi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð við nef vinstra megin og mar undir vinstra auga.