Rætt var um mögulegar lagabreytingar og reglubreytingar til þess að Klausturmálið svokallaða geti fengið faglega meðferð innan veggja Alþingis á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag, samkvæmt Brynjari Níelssyni þingmanni Sjálfstæðisflokks og 2. varaforseta Alþingis.
Í samtali við RÚV segir Brynjar að rætt hafi verið um breytingar á lögum eða reglum til þess að „það sé einhver farvegur fyrir málið“ og bætir því við að meðferð málsins innan Alþingis hafi verið „vesen frá upphafi“.
Þarf ekki að undra að Brynjari þyki það, enda hefur forsætisnefnd í heild sinni lýst sig vanhæfa til þess að fjalla um málið, sem leiddi til þess að ekki hefur verið unnt að láta Klausturmálið ganga með réttum hætti til siðanefndar þingsins.
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis mun kynna mögulegar leiðir til þess að leysa úr þessari stöðu fyrir formönnum flokkanna á morgun, en Brynjar segir að ekki sé einhugur um hvaða leið skuli fara.
„Það er auðvitað bara eðlilegt, þetta er ekki einfalt mál úrlausnar. Menn þurfa samt að komast að einhverri niðurstöðu með einum eða öðrum hætti,“ segir Brynjar.