Engar breytingar verða gerðar á úthlutun úr launasjóði listamanna. Þetta er niðurstaða fundar sem var haldinn í dag þar sem fjallað var um mál rithöfundarins Einars Kárasonar.
Að sögn Hlyns Helgasonar, sem er í stjórn launasjóðs listamanna, var fundað til að fara yfir stöðuna til að sjá hvort einhverjar misfellur hefðu átt sér stað við úthlutunina og svo reyndist ekki vera.
Hlynur segist ekki geta tjáð sig um einstaka mál en bendir á að fréttatilkynning sé væntanleg síðar í dag.
Einar staðfesti á föstudag við Vísi að hann hefði ekki fengið úthlutað úr launasjóði rithöfunda í ár og sagðist þurfa að finna sér eitthvað annað að gera.
Í gær staðfesti hann svo á Facebook-síðu sinni að úthlutunarnefnd listamannalauna hefði ekki fengið umsókn frá honum. Þrátt fyrir það fullyrti hann að hann hefði fyllt út umsókn 24. september í fyrra. Alls var úthlutað 555 mánaðarlaunum úr launasjóði rithöfunda og bárust 253 umsóknir um 2.745 mánuði i launasjóðinn.