Færumst nær lausn með hverjum fundi

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ágætisgang vera í …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ágætisgang vera í viðræðunum nú. mbl.is/Eggert

„Við funduðum með Landssambandi verslunarmanna í morgun og eftir þrjár mínútur hefst fundur með Landssambandi iðnaðarmanna,“ sagði Halldór Benjamín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, þegar mbl.is náði tali af honum á hlaupum.

Halldór Benjamín segir Samtök atvinnulífsins vera að funda á fullu með viðsemjendum sínum þessa dagana. „Hver fundur færir okkur nær lausn,“ segir hann.

Spurður hvort enn sé langt á milli segist hann ekki geta svarað því. „Núna eru bara fundir á hverjum einasta degi og við erum að fara yfir öll þessi mál,“ segir Halldór Benjamín og kveður fundalotuna standa út alla vikuna.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að eitthvað fari að þokast í kjaraviðræðunum, svarar hann játandi. „Mér finnst ágætisgangur í viðræðunum og það er það sem mestu skiptir. Við erum að ræða alvarleg úrlausnarefni.“

Dagurinn notaður til vinnu í undirhópum

Engir fundir hafa verið hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins við viðsemjendur sína í dag að sögn Flosa Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins. Hann segir menn þó vera að nota daginn vel til vinnu í undirhópum.

Hjá ríkissáttasemjara voru ekki heldur haldnir neinir fundnir í dag og var í morgun ekki gert ráð fyrir að fundað yrði fyrr en á miðvikudag, en þá er boðaður fundur í kjaradeilu VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert