Nokkurrar óánægju virðist gæta meðal félagsmanna BHM eftir að tilkynnt var um skerðingu á úthlutunum úr sjúkrasjóði félagsins í síðasta mánuði.
Eins og hjá fleiri stéttarfélögum hefur umsóknum um sjúkradagpeninga fjölgað umtalsvert að undanförnu og ákvað stjórn sjóðsins að tryggja rekstur hans með þessum hætti, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Ýmsar skerðingar voru kynntar. Sjúkradagpeningar eru nú greiddir að hámarki í níu mánuði í stað tólf mánaða, gleraugnastyrkir, fæðingarstyrkir, tækni- og glasafrjóvgunarstyrkir voru lækkaðir og þannig mætti áfram telja. Þá var heilsuræktarstyrkur skertur úr 25 þúsund krónum á ári niður í 12 þúsund krónur. Sú skerðing virðist einmitt standa nokkuð í félagsmönnum og furða margir sig á því að heilsuefling sé skorin niður til að reyna að stemma stigu við aukinni ásókn í styrki vegna heilsuleysis.