„Hlýtur að hafa gengið á annars staðar“

„Ef þetta gekk á á Íslandi þá hlýtur þetta að …
„Ef þetta gekk á á Íslandi þá hlýtur þetta að hafa gengið á annars staðar og það er mikilvægt að að þær konur sem lent hafa í þessu utan Íslands viti að þær hafi stuðning,“ segir Carmen. mbl.is/Eggert

„Ég ætla að tala við lögfræðing í dag og sjá hvernig málið stendur gagnvart mér,“ segir Carmen Jóhannsdóttir, sem steig fram og sagði frá áreitni af hálfu Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, í Stundinni fyrir helgi.

„Ég er á Spáni og ef ég ætla að kæra þá þarf ég að gera það hér, því þetta gerðist á Spáni. Það er náttúrulega mun meiri karlamenning hér en á Íslandi, en ég veit af konu í Andalúsíu, héraðinu þar sem Jón Baldvin og Bryndís Schram eru búsett, sem beitir sér í baráttunni gegn ofbeldi gagnvart konum og gæti gefið mér meðbyr.“

Carmen segir nokkra spænska fjölmiðla hafa fengið fregnir af málinu og vonast til þess að fjallað verði um það.

„Ef þetta gekk á á Íslandi þá hlýtur þetta að hafa gengið á annars staðar og það er mikilvægt að þær konur sem lent hafa í þessu utan Íslands viti að þær hafi stuðning,“ segir Carmen, og að rætt hafi verið að skrifa lýsingu á ensku fyrir Metoo-hópinn sem stofnaður hefur verið á Facebook, þar sem konum gefst tækifæri á að koma sögum sínum á framfæri, ýmist undir nafni eða nafnlaust.

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/RAX

Hópurinn varð til í kringum umfjöllun Stundarinnar um meinta áreitni Jóns Baldvins og segir Carmen hann hafa farið fram úr björtustu vonum.

Ekki eitthvað sem hægt er að hunsa

„Ég ákvað að stíga fram þegar ég sá að vinkona mín, Sigrún Skaftadóttir, formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, gagnrýndi á Facebook að Jón Baldvin hefði verið í viðtali hjá Kiljunni á RÚV. Það var ljós í myrkrinu fyrir mig og ég fór að spyrja hana hvers vegna hún segði þetta. Þá komst ég að því að það væri fullt af konum þarna úti sem hefðu svipaða sögu að segja af Jóni Baldvini og ég,“ segir Carmen.

Eins og Stundin greindi frá var Carmen stödd í matarboði hjá Jóni Baldvini og eiginkonu hans, Bryndísi Schram, eftir leik Íslands á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu síðastliðið sumar þegar Jón Baldvin hóf að strjúka á henni rassinn.

„Mér var búið að líða illa yfir þessu í marga mánuði og reyna að leggja þetta til hliðar, en þetta kom alltaf upp aftur. Þetta er ekki eitthvað sem hægt er að hunsa,“ segir Carmen.

„Þarna var Klausturmálið búið að vera í gangi og ég ákvað að setja mig í samband við blaðamann.“

Á fjórða hundrað í Metoo-Facebookhóp

Þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla, enda hafi blaðamaður Stundarinnar vitað af fleiri konum sem höfðu orðið fyrir áreitni og ofbeldi af hálfu Jóns Baldvins og hvatt þær til þess að stíga fram samhliða Carmen.

„Þær ákváðu að halda fund og ég gaf mig fram við þær og kynnti mig. Í kjölfarið ákváðum við að stofna Facebook-hópinn, sem mér finnst hafa verið það allra sterkasta. Það sést á því hve margar hafi stigið fram og hve margir vilja fá að vera með.“

Hópurinn telur nú á fjórða hundrað og segir Carmen það ýmist vera konur sem lent hafa í honum, aðstandendur þeirra og vitni, en líka fólk sem er einungis þar til að veita stuðning.

Innan hópsins hafa komið upp hugmyndir um að fara eigi fram á afsökunarbeiðni frá Alþingi. „Persónulega er ég alveg til í að fara fram á það og það er gríðarlegur meðbyr fyrir því. Við höfum ekki gefið okkur tíma í að ræða það en ég býst við því að það verði gert í dag.“

Fer alla leið fyrir hinar konurnar

Eins og áður segir ætlar Carmen að leita lögfræðiálits og hefur í hyggju að kæra háttsemi Jóns Baldvins.

„Ég ætla að gera það, þó það sé alltaf ákveðinn pakki, en mér finnst það vera rétta skrefið. Ég geri það fyrst og fremst fyrir allar þessar konur sem hann hefur brotið á, en brotin orðin fyrnd. Ef það kemur í minn hlut að verja þær með þessum hætti þá fer ég alla leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka