Kanna hvort safnið aðhafist í málinu

Bragginn umdeildi í Nauthólsvík.
Bragginn umdeildi í Nauthólsvík.

Borgarskjalasafn hefur til athugunar hvort safnið skuli aðhafast í tengslum við Braggamálið svonefnda, en Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna, hefur farið fram á að Borgarskjalasafn athugi hvers vegna ýmis skjöl hafi ekki reynst tiltæk og verið eytt.

„Þegar það liggur fyrir þá verða menn að taka afstöðu til þess hvað er gert,“ sagði hann í samtali við mbl.is, en fulltrúar úr borgarminnihlutanum munu á næsta borgarstjórnar fundi flytja tillögu þess efnis að Braggamálinu verði vísað til héraðssaksóknara.

Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, kveðst lítið geta tjáð sig um málið og að til skoðunar sé hvort safnið aðhafist í málinu, m.a. með hliðsjón af nýlegum ákvæðum laga um opinber skjalasöfn, en safnið heyrir undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

„Við erum að byrja að skoða málið og munum kanna hvort við gerum eitthvað í því. Við munum tilkynna um það ef við ákveðum að gera eitthvað í þessu,“ segir Svanhildur, en hún kveðst nú bíða þess að verða kölluð fyrir borgarráð. „Ég hef ekki verið boðuð á ákveðinn fund, en mér er sagt að það verði á næstunni. Þá mun ég fara yfir þessi mál með borgarráði,“ segir hún.

Skoða yfirleitt ekki einstök mál

Aðspurð segir Svanhildur að ekki hafi áður komið upp mál af þessum toga enda séu eftirlitsákvæði laganna nýleg. Því þurfi að athuga hvernig Borgarskjalasafn beri sig að í málinu.

„Samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn, þá höfum við eftirlit með skjalavörslu hjá Reykjavíkurborg,“ segir Svanhildur, en hún segir aðspurð að venjulega séu einstök mál ekki skoðuð af Borgarskjalasafni, heldur hafi safnið almennt eftirlit með skjalavörslu. T.a.m. hafi verið gefin út skýrsla síðasta haust um stöðu skjalavörslu hjá borginni.

„Við eigum eftir að skoða hvað við gerum í sambandi við þetta mál,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert