Sveitarstjóri Reykhólahrepps fékk nú í morgun afhentan undirskriftalista þar sem mótmælt er að Reykhólaleiðin, svonefnd R-leið, verði valin fyrir Vestfjarðaveg, að því er fréttavefurinn Bæjarins besta greinir frá.
„Við ábúendur, íbúar og aðrir sem málið varðar viljum mótmæla því að svokölluð R leið verði valin sem hluti af stofnvegakerfi fyrir sunnanverða Vestfirði með tilheyrandi vegalagningu út Reykjanesið og stóraukinni umferð út Barmahlíðina,“ segir í bréfi með undirskriftalistanum.
Hefur Bæjarins besta eftir Kristjáni Þór Ebernesersyni, bónda á Stað, að hann telji meirihluta íbúa hreppsins vera mótfallinn R-leiðinni.
95 manns skrifuðu undir undirskriftalistann og eru tveir þriðju hlutar þeirra með lögheimili í hreppnum. Sá þriðjungur sem er með lögheimili utan hrepps á þar svo ýmist fasteignir, jarðir eða fyrirtæki. Undirskriftalisti með R-leiðinni, sem afhentur var sveitarstjóra síðasta vor, var með 52 undirskriftir.
Íbúar í Reykhólahreppi voru 259 í byrjun ársins, þar af tæplega 200 á kjörskrá.