ikil aukning hefur orðið í sókn Íslendinga í læknismeðferðir ytra milli ára, til að mynda vegna tannlækninga. Alls sóttu 1.268 Íslendingar sér læknismeðferð erlendis í fyrra, samanborið við 781 árið 2017.
Mestur fjöldi var vegna svokallaðra tilskipunarmála, 816 einstaklingar sóttu þjónustu ytra en fengu meðferðarkostnað eins og hann væri á Íslandi. Alls greiddu Sjúkratryggingar Íslands 55 milljónir króna til þessa hóps. Árið áður sóttu 243 samskonar þjónustu út fyrir landsteinana. Halla Björk Erlendsdóttir, deildarstjóri í alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands, upplýsti að þessi mikla aukning væri fyrst og fremst til komin vegna tannlækninga.
Þeim fjölgar hratt sem kjósa að leita sér læknismeðferðar í útlöndum þó samskonar þjónusta sé í boði hér á landi. Er það gjarnan vegna langra biðlista og að undangenginni 90 daga bið. 114 einstaklingar fengu greiddan uppihalds- og ferðakostnað vegna slíkra meðferða í fyrra, samanborið við 49 manns árið áður og fimm einstaklinga árið 2016. Liðskiptaaðgerðir hafa verið algengastar í þessum flokki síðustu ár.
Alls greiddu Sjúkratryggingar Íslands út um 44 milljónir króna vegna þessara meðferða á síðasta ári, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
.