Úrræði fyrir ungmenni til skoðunar

„Krakkar eru alltaf að sofa minna og minna. Þetta er …
„Krakkar eru alltaf að sofa minna og minna. Þetta er einn af þessum stóru þáttum sem hafa verið að breytast mikið undanfarin ár og er orðið verulegt vandamál,“ segir Ársæll Már Arnarsson. mbl.is/Hari

Eitt af því sem rætt verður í nýjum stýrihópi í málefnum barna er að koma á laggirnar úrræði fyrir ungmenni sem þurfa á stuðningi að halda. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir að hann bindi vonir við að stjórnvöld geti unnið með grasrótarsamtökum við að stofna slíkt úrræði. 

Að sögn Ásmundar fór hann að skoða möguleikann á að stofna úrræði fyrir ungmenni hér á landi snemma á síðasta ári. Aukinn kraftur hafi komið í þessi mál með stofnun Bergsins og þeim mikla drifkrafti sem fylgir þeim sem að því standa. 

Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir eru meðal þeirra sem stóðu …
Sigurþóra Bergsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir eru meðal þeirra sem stóðu að stofnun Bergsins. mbl.is/Hari

Sigurþóra Bergsdóttir, einn af stofnendum Bergsins, úrræðis fyrir ungt fólk, fagnar því að félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, sé með til skoðunar að koma upp úrræði fyrir ungt fólk sem þarf á stuðningi að halda. Úrræði sem svipar til Headspace sem er ástralskt úrræði fyrir ungt fólk. Slíkum miðstöðvum hefur meðal annars verið komið upp í Danmörku, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, Poul Nyrup Rasmussen, kom því á laggirnar í kjölfar þess að hafa misst dóttur sína í sjálfsvígi þegar hún var aðeins sextán ára gömul.

Hugmyndafræðin þar byggist á því að ungt fólk á aldrinum 12 - 25 ára geti gengið að því sem vísu að eiga kost á því að leita til einhvers, sama hversu stór eða lítil vandamálin eru.

Bergið verður þverfaglegt móttöku- og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk þar sem í boði verður einstaklings- og áfallamiðuð þjónusta.

Sigurþóra fór ásamt tveimur öðrum til Kaupmannahafnar að skoða Headspace-miðstöðina á Norðurbrú en þar er byggt á svipaðri hugmyndafræði og Bergið mun gera.

Að sögn Sigurþóru hefur hún ásamt öðrum úr stjórn Bergsins verið í sambandi við Ásmund Einar, Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra auk starfsfólks í ráðuneytunum þremur um stofnun meðferðarseturs hér á landi.

Hún segir að viðbrögð ráðherra sem og annarra starfsmanna ráðuneytanna hafi verið mjög jákvæð og hún segir að það gleðji sig mjög að það stefni í að þessi starfsemi fari í gang hér.

Frétt mbl.is

Sigurþóra segir að forsvarsfólk Headspace í Danmörku sé reiðubúið til þess að styðja við stofnun Bergsins hér á landi og eins hafi þau verið í samskiptum við Headspace í Ástralíu sem markaði upphaf starfsemi af þessu tagi. Yfir 100 slík úrræði eru í gangi í Ástralíu þar sem áherslan er lögð á lágþröskuldaúrræði, það er þjónustu án þess að til þurfi tilvísun úr heilbrigðiskerfinu. Að allir geti fengið þjónustu við hæfi. Hugsunin og hugmyndafræðin byggir á snemmtækri íhlutun, að lækka þröskuldinn, svo sem andlega þröskuldinn því ungt fólk á oft erfitt með að leita eftir þjónustu vegna stimplunar og skammar sem margir óttast. Ungt fólk vill ekki endilega ganga inn í einhverjar aðstæður þar sem það er stimplað á einhvern hátt. Heldur geti það farið á stað þar sem unnið er út frá þess forsendum á jákvæðan hátt.

Eins viljum við lækka raunverulega þröskulda eins og biðlista og að þurfa að vera með einhverja greiningu til þess að fá aðstoð. Þetta er eitt af því sem hefur verið að búa til mikla þröskulda fyrir ungt fólk og forráðamenn þess.

Sig­urþóra og Sigrún Sig­urðardótt­ir, lektor við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, stóðu að stofnun sam­taka um meðferðar­set­ur fyr­ir ungt fólk 17. september. Allt frá þeim tíma hefur hópur fólks unnið að verkefninu en Sigurþóra er stjórnarformaður Bergsins.

Fagráð Bergsins hefur unnið að verkefninu frá þeim tíma en fleiri hundruð manns tóku þátt í stofnun samtakanna.

Hún segir að stefnt sé að því að halda fund með hópi ungmenna, um 50-60 manna hópi, síðar í mánuðinum þar sem ungmennin fara yfir það sem þau telji vanta sem innlegg í að þróa úrræðið.

„Því þó svo við séum að horfa á þetta út frá einhverju sem þegar er til í Ástralíu, Danmörku og fleiri stöðum þá verður þetta alltaf íslenskt. Líkt og það er munur á því sem er í Danmörku og Ástralíu því slík starfsemi tekur mið af því samfélagi sem hún starfar í. Við erum að búa til íslenskt Headspace. Við erum að leita að húsnæði fyrir Bergið og vonandi finnum við það sem fyrst,“ segir Sigurþóra.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á síðasta ári var skrifað undir samkomulag ráðherra félags-, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að auka samstarf milli málefnasviða sem undir hvern og einn aðila heyra og snúa að velferð barna.

Um áramót þegar breytingar urðu á skipan ráðuneyta og barnamálin fengu aukið vægi innan félagsmálaráðuneytisins var farið af stað með samstarf ráðuneytanna með skipan stýrihóps í málefnum barna. Stýrihópurinn mun starfa innan félags- og barnamálaráðuneytisins en fulltrúar annarra ráðuneyta, það er heilbrigðis-, sveitarstjórnar-, forsætis-, dóms- og menntamálaráðuneytisins munu eiga fulltrúa í hópnum auk Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Stýrihópnum er ætlað að taka fyrir málefni barna sem hingað til hafa verið að lenda á milli kerfa. Þetta er eitt þeirra mála, segir Ásmundur en ítrekar að þessi vinna sé enn á byrjunarstigi en vonandi verði hægt að koma slíku úrræði í gagnið með stuðningi frá stjórnvöldum. 

Ásmundur Einar Daðason sagði í viðtali við Sigurð Boga Sævarsson í Morgunblaðinu fyrir viku að mál barna og ungmenna sem eru í vanda og fá ekki aðstoðina sem þarf, væru erfiðustu málin sem hafa komið inn á hans borð í ráðuneytinu. „Fyrstu mánuði mína í embætti ræddi ég við fulltrúa fjölda samtaka sem vinna að velferð barna til þess að fá innsýn í málaflokkinn. Einnig komu hingað til mín foreldrar barna í neyslu og stundum líka ungt fólk sem hafði náð tökum á neyslu sinni og vildi segja sína sögu. Þetta voru lærdómsrík samtöl sem reyndu verulega á, en sögðu mér líka að samfélagið þarf að gera betur í stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra.“

Ásmundur Einar ræddi um lágþröskuldaúrræði fyrir ungmenni í morgunþætti Rásar 1 í morgun.

Ársæll Már Arnarsson prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Ársæll Már Arnarsson prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í grein Önnu Lilju Þórsdóttur í Morgunblaðinu á föstudag var fjallað um rannsókn á líðan unglinga og rætt við Ársæl Má Arnarsson, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands, sem hefur umsjón með með rannsókninni.

Hann segir að margt standi upp úr þegar niðurstöðurnar séu skoðaðar. „Það er augljóst að líðan unglinga er verri núna en hún hefur nokkurn tímann verið áður. Þróunin er ekki í rétta átt.“

Spurt var um hversu oft unglingarnir hefðu fundið fyrir depurð á síðustu sex mánuðum. 30,9% nemenda í 6. bekk höfðu fundið fyrir depurð vikulega eða oftar, 29,8% í 8. bekk og 39,1% í 10. bekk.

Þegar spurt var um einmanaleika sögðust um 13% 6. bekkinga vera oft eða mjög oft einmana, svipað hlutfall 8. bekkinga og rúm 17% 10. bekkinga.

Einnig var spurt um svefn. Um 41% nemenda í 6. bekk sagðist finna fyrir svefnörðugleikum vikulega eða oftar, hlutfallið var 34% í 8. bekk og tæp 38% í 10. bekk.

Ársæll segir sérstaka ástæðu til að hafa áhyggjur af svefnmynstri barna og unglinga. „Krakkar eru alltaf að sofa minna og minna. Þetta er einn af þessum stóru þáttum sem hafa verið að breytast mikið undanfarin ár og er orðið verulegt vandamál,“ segir Ársæll.

Hann segir svefn skipta miklu máli varðandi líðan og að hann hafi áhrif á aðra þætti sem valda vanlíðan eins og t.d. óhóflega notkun samfélagsmiðla, sjónvarpsáhorf og tölvunotkun. 

Samkvæmt rannsókninni dregur úr tíðni eineltis með auknum aldri. 77,3% 6. bekkinga höfðu aldrei verið lögð í einelti undanfarna tvo mánuði. Hlutfallið var 86,3% hjá 8. bekkingum og 88,9% hjá nemendum í 10. bekk. Rúm 6% nemenda í 6. bekk voru lögð í einelti einu sinni í viku eða oftar, 3,4% í 8. bekk og 2,9% í 10. bekk.

Spurður hvort þetta hlutfall nemenda í 6. bekk sé ekki býsna hátt svarar Ársæll játandi. „Eitt tilvik væri of mikið. En tölurnar fyrir eineltið eru talsvert lægri hér á landi en í öðrum löndum sem taka þátt í rannsókninni, þannig að við komum vel út í alþjóðlegum samanburði.

Við höfum líka verið með tiltölulega litla áfengisdrykkju unglinga miðað við önnur lönd. En rafretturnar eru að sækja í sig veðrið hérna og við erum orðin býsna há í þeim samanburði.“ Hvað segir rannsóknin okkur um það hvernig er að vera unglingur á Íslandi í dag? „Hún sýnir okkur að því fylgja áskoranir, mikið álag og mikið áreiti.

Hún sýnir okkur líka að það eru gerðar talsvert miklar kröfur til unglinga. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé besta kynslóðin sem við höfum haft, þetta eru yfirhöfuð góðir og vel heppnaðir krakkar og þau standa fyrri kynslóðum að mörgu leyti framar. En þau standa frammi fyrir miklum áskorunum.“

Rannsóknin er gerð á fjögurra ára fresti, var fyrst gerð árið 2006 og síðast í fyrra og um 44 lönd tóku þá þátt í henni. WHO mun síðan gefa út skýrslu í vor þar sem niðurstöður allra landanna verða bornar saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert