Leit ferðamanna að norðurljósunum skapar hættu á íslenskum vegum, segir í umfjöllun norska dagblaðsins Aftenposten sem kveður íslensku lögregluna nú vara ferðamenn við hættunni.
„Margir sækja Ísland heim til að eyða nóttunni undir stjörnubjörtum heimskautahimni og sjá himininn lýsast upp af litasinfóníu norðurljósanna,“ segir í grein Aftenposten, sem vísar í skrifum sínum í AP-fréttaveituna.
„Ferðamenn aka á miðjum veginum um miðja nótt í leit að norðurljósum. Á örskotsstundu getur auður vegur hins vegar verið orðinn ísilagður, háll og lífshættulegur. Bílstjórinn er oft þreyttur og veitir ekki næga athygli þröngum vegum og beygjunum sem á þeim eru.“
Ferðamenn eru sagðir streyma til sagnaeyjunnar frá öllum heimshornum í leit að norðurljósum, þar sem góðar líkur séu á að sjá norðurljósin á Íslandi. Norðurljósatúrisminn sé hins vegar ekki vandkvæðalaus, ekki hvað síst varðandi umferðina og hefur AP eftir íslensku lögreglunni að marga ferðamenn skorti reynslu í að aka í vetrarveðri. Það veki þó ekki síður áhyggjur hvernig ferðamenn gleymi sér á vegum í leit sinni að norðurljósunum.
„Veðrið á Íslandi breytist á fimm mínútna fresti og aðstæður á vegum breytast jafn hratt,“ hefur fréttaveitan eftir Jóhannesi Sigfússyni lögregluvarðstjóra á Akureyri. „Á aðeins nokkrum mínútum getur þurr vegur verið orðinn ísilagður og háll.“
Hættan á slysum er sögð mest á kvöldin, þegar óvanir og þreyttir bílstjórar horfi til himins í leit að norðurljósunum.
18 manns létust í umferðarslysum á Íslandi í fyrra og var helmingur þeirra útlendingar.
Segir Aftenposten þá marga fara út fyrir höfuðborgina til að njóta norðurljósanna sem best. Þá gerist það stundum að í leit sinni að norðurljósunum velji einhverjir ökumenn hættulega fjallvegi og bílferðin hafi hjá sumum þeirra endað með hörmungum.