Samninganefndir iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins hittast aftur í dag til viðræðna. Síðasti fundur var á laugardaginn var.
„Við erum að tala saman, sem er jákvætt,“ sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 2. varaforseti ASÍ. Auk Rafiðnaðarsambandsins eiga fulltrúa í samninganefnd iðnfélaganna Byggiðn, VM, Grafía, Félag hársnyrtisveina, Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri, FIT og Matvís.
Ekki er byrjað að ræða launamál með beinum hætti, að sögn Kristjáns. Ein meginkrafa iðnaðarmanna er að stytta heildarvinnutíma án launaskerðingar og það er á meðal þess sem rætt hefur verið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.