Hlaup hafið í Múlakvísl

Vatnsmagnið náði hámarki um hádegi.
Vatnsmagnið náði hámarki um hádegi. mbl.is/Jónas

Hlaup er hafið í Múlakvísl en samkvæmt mælum Veðurstofu Íslands fór vatnshæð vaxandi í morgun og náði hámarki um hádegi. Heldur hefur dregið úr vatnshæðinni síðan þá.

Rafleiðni í ánni helst nokkuð stöðug samkvæmt sérfræðingi á Veðurstofu Íslands.

„Það er hlaup í ánni og það er brennisteinslykt,“ segir sérfræðingur Veðurstofu Íslands. Ekki hefur verið gefin út viðvörun vegna hlaupsins en sérfræðingar frá Veðurstofunni meta stöðuna á morgun.

Jónas Erlendsson í Fagradal, fréttaritari mbl.is, segir að almennt sé ekki mikið vatn í Múlakvísl á þessum árstíma. Nú sé hins vegar margfalt vatn í ánni miðað við venjulega. „Bæði er þetta hlaupvatn og svo er megn brennisteinslykt af henni,“ segir Jónas.

Megn brennisteinslykt er af ánni.
Megn brennisteinslykt er af ánni. mbl.is/Jónas

Jónas tók nokkrar myndir vestan megin við brúna, en þar er lægð í veginum og segir hann að ekki þurfi að hækka mikið í ánni svo það fari yfir þjóðveginn. Það hafi þó sloppið hingað til í minni hlaupunum.

Eins og sjá má á myndum rennur Múlakvíslin nú nokkuð nálægt Háafelli sem er vestan megin við ána. Múlakvísl hefur að sögn Jónasar undanfarin ár ekki runnið meðfram fellinu, heldur talsvert austar, nema í vatnavöxtum eða hlaupum.

Þá segir Jónas að áin sé búin að taka talsvert úr görðum sem hafi verið mokaðir upp aðeins fyrir ofan brúna. Hafi hún gert skörð í garðana og grafið úr endum þeirra.

Áin rennur nú alveg upp að Háafelli, sem er vinstra …
Áin rennur nú alveg upp að Háafelli, sem er vinstra megin á myndinni. Mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert