Starfsmenn RR-ráðgjafar eru nú að hefja greiningu á kostum og göllum sameiningar fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi í eitt.
Bæjar- og sveitarstjórnir á Fljótsdalshéraði, í Borgarfjarðarhreppi, Seyðisfjarðarkaupstað og Djúpavogshreppi ákváðu í fyrrahaust að hefja formlegar viðræður um sameiningu en bollaleggingar um slíkt hafa lengi átt sér stað.
Ráðgjafarfyrirtækið er tekið við stjórn verkefnisins og mun á næstunni safna upplýsingum um fjárhagsstöðu hvers sveitarfélags um sig. Jafnframt á að kanna afstöðu íbúanna til þess hvernig þeir vilji sjá þjónustu og starfsemi háttað ef íbúar samþykkja tillögu um sameiningu sveitarfélaganna, að því er fram kemur í umfjöllun um sameiningaráformin í Morgunblaðinnu í dag.