Málið fari rétta boðleið til siðanefndar

Vorþing hefst formlega með þingfundi á mánudag og eru ýmis …
Vorþing hefst formlega með þingfundi á mánudag og eru ýmis stór mál á dagskrá. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Viðfangsefnið er að koma málinu í réttan farveg svo það geti gengið sína leið,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sem fundar með formönnum þingflokka í dag. Þar verður Klausturmálið, og ráðstafanir vegna þess, meðal dagskrárliða.

Á fundi forsætisnefndar í gær voru mögulegar laga- og reglubreytingar til þess að málið komist í farveg ræddar, og verður sú umræða tekin áfram á fundi þingflokksformanna í dag.

Steingrímur segir málið raunar ekki mjög flókið. „Þetta snýst um að málið geti gengið rétta boðleið til siðanefndar. Það er líklegasta leiðin og sú sem til stóð, en strandaði á vanhæfi forsætisnefndar. Verkefnið er að leysa úr þessu.“

„Svo vilja menn líklega ræða þetta innan þingflokkanna, sem flestir funda á miðvikudögum, svo þetta verður í vinnslu í vikunni,“ segir Steingrímur.

Mögulegar breytingar á þingmálaskrá skýrist í næstu viku

Vorþing hefst formlega með þingfundi á mánudag og eru ýmis stór mál á dagskrá, svo sem samgönguáætlun, Hvítbók fjármálakerfisins og fiskeldisfrumvarp. „Samgönguáætlunin er eitt af stóru verkefnunum sem eru beint fram undan og stefnt er að afgreiðslu þess um eða fyrir mánaðamót.“

Þá gerir Steingrímur ráð fyrir því að samkomulag náist um að þing hefjist með svipuðum hætti og í fyrra, þegar forsætisráðherra innleiddi pólitíska umræðu um stöðuna og verkefnin fram undan, og mæltist vel fyrir.

„Svo verða málin tekin koll af kolli. Þá kemur forsætisráðherra til fundar með formönnum þingflokka í næstu viku og þá skýrist hvort teljandi breytingar verði á þingmálaskrá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert